Breytingar í stofnstærð landsels á 40 ára tímabili

Myndin var tekin í flugtalningarverkefninu 2020 (Sandra Granquist). Myndin var tekin í flugtalningarverkefninu 2020 (Sandra Granquist).

Nýverið birtist vísindagrein um sveiflur í stofnstærð landsels yfir 40 ára tímabil sem ber heitið "The Icelandic harbour seal (Phoca vitulina) population: trends over 40 years (1980–2020) and current threats to the population". Höfundur greinarinnar er Sandra Granquist, sjávarspendýrasérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og deildarstjóri selarannsóknadeildar hjá Selasetri Íslands.

Reglulegar stofnmælingar landsels eru nauðsynlegar til að fylgjast með sveiflum í stofnstærð og fyrir stjórnun stofna. Í þessari grein er kynnt framkvæmd stofnmælinga á íslenska landselastofninum, stöðu stofnsins í dag ásamt þróun hans yfir 40 ára tímabil. Alls voru framkvæmdar 13 talningar úr lofti yfir selalátur (júlí-ágúst) á árunum 1980 til 2020. Fjöldi landsela við Ísland samkvæmt nýjastu talningu frá 2020 er um 10.319 dýr. Það er um 69% færri en þegar eftirlit með stofninum hófst árið 1980, en þá var fjöldinn 33.327 selir.

Talningar benda til þess að mesta fækkunin hafi átt sér stað á fyrsta áratug mælinganna, þegar stofninn drógst saman um 50% og orsökin talin vera veiðar. Síðan þá hefur fækkun í selastofninum verið hægari og fjöldinn sveiflast lítillega. Staða stofnsins er viðkvæm og ýmsir þættir sem þar hafa áhrif, s.s. meðaflaveiðar, viðvera og ágangur manna, umhverfisþættir, mengun, loftslagsbreytingar og sveiflur í fæðutegundum sela. Niðurstöður talninganna undirstrika mikilvægi áframhaldandi talninga og að sinna rannsóknum sem kunna að hafa áhrif á þróun stofnsins.

Hlekkur á greinina


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?