Málstofa 27. nóvember - Ralph Tiedemann

Ralph Tiedemann Ralph Tiedemann

Ralph Tiedemann, prófessor við Háskólann í Potsdam verður með erindi á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Hér fylgir samantekt um erindið og Ralph.

Tími: Mánudagurinn, 27. nóvember, 12:30-13:00
Staður: Stóri fundarsalurinn á fyrstu hæð Fornubúða 5, Hafnarfirði
Streymi: Beint á YouTube-rás Hafrannsóknastofnunar
Fyrirlestur og glærur: Enska

 

 

Stofnerfðafræði hnísu og hrefnu í Norður-Atlantshafi

Í þessum fyrirlestri mun Ralph Tiedemann, prófessor við Háskólann í Potsdam, kynna nýjar rannsóknir á stofngerð hnísu og hrefnu í Norður-Atlantshafi, sem hefur verið samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar og Háskólans í Potsdam í Þýskalandi um nokkur skeið. Áherslan í þessum rannsóknum hefur verið á betri upplausn, frá einstaka genasætum til greininga á erfðamengjum. Einnig er komið inná hvernig skyldleikagreiningar geta hjálpað við greiningu stofnagerðar og stofnstærðar.

Nýjar greiningar á hrefnu, byggðar á SNP greiningu, sýna nokkra ólíka hópa í N-Atlantshafi, en allir þessir hópar finnast þó við Ísland. Þessi greining sýnir líka blöndunarhlutföll milli þessara hópa, sem er hægt að nýta í stofngerðarlíkön og ráðgjöf innan Alþjóða hvalveiðiráðsins.

Greining á erfðamengjum hnísu sýna frekar lítinn breytileika milli svæða, og ekki er hægt að finna mismunandi stofna í N-Atlantshafi, þó svo að hægt hafi verið að auðkenna hópa við NV Grænland og í Eystrasalti, sem gæti bent til aðlögunar að umhverfinu á ákveðnum svæðum.

Um Ralph

Ralph Tiedemann starfar sem professor við Háskólann í Potsdam og stýrir þar sviði Þróunarlíffræði og kerfisbundinar dýrafræði. Rannsóknarsvið hans tengist tegundamyndun, sameindakerfum og aðlögun dýra með mismunandi lífsferil.

Ralph lærði líffræði og tölvunarfræði við Háskólann í Kiel og fékk dimploma gráðu í líffræði árið 1990 og Dr. rer. nat. í dýrafræði árið 1994. Á árunum 1986-1988 hlaut hann styrk til náms í líffræði og í íslensku við Háskóla Íslands.

Ralph hefur unnið í samvinnu við margar stofnanir að rannsóknum sínum, þar á meðal Hafrannsóknastofnun.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?