Framkvæmdum er lokið við fyrirstöðuþrep í Langadalsá

Fyrirstöðuþrep í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Teljarinn er staðsettur í hólfinu ofan við þrepið. Fyrirstöðuþrep í Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Teljarinn er staðsettur í hólfinu ofan við þrepið.

Nýlega lauk framkvæmdum á vegum Hafrannsóknastofnunar við fyristöðuþrep, sem staðsett er neðarlega í Langadalsá við Ísafjarðardjúp.  Tilgangur þeirra var að koma fyrir fiskteljara með myndavél til talninga og greininga á göngufiski í ánni og er framkvæmdin hluti af vöktun náttúrulegra veiðivatna í tengslum við uppbyggingu sjókvíaeldis. 

Fyrirstöðuþrepið er um 40 m langt og er hannað af Vífli Oddssyni verkfræðing á teiknistofunni Óðinstorgi ehf. í samráði við Hafrannsóknastofnun.  Nýjum myndavélateljara frá Pentair/Vaki var komið fyrir í teljarastíflu í mannvirkinu og eru þrjú þrep neðan við teljarann til að auðvelda fiski uppgönguna.  Teljarinn telur göngufiska og tekur mynd af hverjum fiski sem á leið upp ána. Með þessum búnaði og út frá veiðitölum er ætlunin að meta heildarstofnstærð laxa í ánni.  Fyrirhugað er að teljarinn verði í virkni á þeim tíma sem von er á gögnum laxfiska úr sjó eins langt fram eftir hausti sem von er á fiski og unnt er vegna aðstæðna.  Með nýja búnaðinum er mögulegt að tegundagreina og stærðarmæla einstaka fiska sem ganga í ána. Einnig er hægt að greina ytri eldiseinkenni, s.s. eydda ugga, ef laxar sem sloppið hafa úr sjókvíaeldi ganga um teljarann og unnið er að því að hægt verði að meta magn laxalúsa á fiskinum. 

Undirbúningur framkvæmdanna hefur staðið yfir frá því á síðasta ári og eru þær kostaðar af Umhverfissjóði sjókvíaeldis. Fyrirtækið Vestfirskir Verktakar önnuðust framkvæmdina.

Þann 21. júní s.l. gekk fyrsti laxinn um nýja teljarann.  Um var að ræða stórlaxahæng 103 cm að lengd.  Niðurstöður úr teljaranum eru aðgengilegar á http://riverwatcherdaily.is/Rivers, en þar er unnt að fylgjast með göngutíma fiska, áætlaða stærð þeirra og myndskeið af fiskunum.

 Myndskeið þar sem sjá má lax ganga upp um teljara í Langadalsá kl. 3:55 þann 21. júní 2019.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?