Vöktun veiðiáa

Strokulaxar í ám - árvekni veiðimanna mikilvæg

Mynd tekin úr dróna af laxastiga í Laugardalsá. Mynd tekin úr dróna af laxastiga í Laugardalsá.

Árvekni veiðimanna er mikilvæg

Mikilvægt er að veiðimenn séu vakandi fyrir mögulegum eldiseinkennum á löxum sem þeir veiða. Einkennin geta verið mjög misáberandi milli eldislaxa sem fer m.a. eftir því hvenær í lífsferlinum viðkomandi lax slapp úr eldi. Nánari lýsingar á einkennum eldislaxa má sjá á skýringarmynd neðst í fréttinni

Áríðandi er að löxum með eldiseinkenni sé komið til Hafrannsóknastofnunar til rannsókna.

Mögulegir strokulaxar úr eldi sjást í fiskiteljurum áa

Í ljósi frétta um slysasleppingar laxa úr sjókvíum er tilefni til að árétta mikilvægi þess að veiðimenn og veiðiréttareigendur séu vakandi yfir hugsanlegum strokulöxum úr sjókvíum í ám.

Laxar sem mögulega eru strokulaxar úr eldi hafa nýlega sést í teljurum í ám hér á landi, til dæmis í Laugardalsá (mynd 1).

Mynd 1. Lax í teljara í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi 22. ágúst 2023. Ytri einkenni geta bent til eldisuppruna.

Vöktun veiðiáa

Við vöktun á mögulegum áhrifum eldislaxa á náttúrulega laxastofna eru nokkrir þættir vaktaðir. Nokkrar ár hér á landi eru vaktaðar með fiskteljurum. Fiskteljararnir eru búnir myndavélum sem gefa færi á nákvæmu stofnstærðarmati laxfiska, möguleika á mati á magni lúsa á fiski og greiningum á fiski af eldisuppruna.

Reglubundin söfnun erfðasýna af smáseiðum úr ám er notuð til að fylgjast með mögulegri erfðablöndun. Framkvæmd er erfðagreining á uppruna fiska sem veiðast og taldir eru af eldisuppruna.

Á síðustu árum hafa veiðst eldislaxar í stangveiði í ám hér á landi. Greiningar á erfðaefni seiða í ám hafa sýnt merki um erfðablöndun villtra íslenskra laxa og norskættaðra eldislaxa.


Mynd 2. Leiðbeiningar um greiningu á hvort veiddur fiskur sé náttúrulegur eða strokufiskur úr eldi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?