Ljósmynd: Leó Alexander Guðmundsson
Út er komin samantektarskýrsla um vöktun Hafrannsóknastofnunar 2024 á áhrifum sjókvíaeldis á villta laxastofna á Íslandi. Vöktuninni má skipta niður í nokkra þætti; vöktun með fiskteljurum, greiningu og rakningu meintra strokulaxa úr eldi, greining á lífssögu strokulaxa með hreisturrannsóknum og rannsóknir á erfðablöndun.
Helstu niðurstöður voru: Engir strokulaxar greindust í myndavélateljurum 13 áa. Á stofnuninni voru greindir 30 strokulaxar sem veiðst höfðu í ám og vötnum; sjö komu úr stangveiði og 23 úr æfingarferð Hafrannsóknastofnunar og NORCE í rekköfun. Með samanburði á arfgerðum strokulaxa og klakhænga var hægt að rekja flesta til strokstaða.
Sex voru úr strokatburðinum í Kvígindisdal í Patreksfirði 2023 meðan aðrir fiskar komu mögulega úr sex nýjum strokum á Vestfjörðum. Greining á vaxtarmynstri í hreistri studdi þær niðurstöður og einnig fundust gotmerki í hreistri nokkurra eldislaxa. Erfðablöndun var könnuð í 5.026 laxaseiðum úr 76 ám sem er afrakstur sýnatöku áranna 2023 og 2024.
Alls greindust 42 blendingar í 15 ám, eldri erfðablöndun greindist meðal 152 seiða í 23 ám og seiði af hreinum eldisuppruna fundust í fjórum ám og voru 12. Blendingar og afkvæmi eldislaxa fundust einkum í ám nærri eldissvæðum en dæmi voru um blendinga í 200 til 300 kílómetra fjarlægð.
Í skýrslunni eru veiðimenn hvattir til að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum eldiseinkennum veiddra laxa og hafa samband við Hafrannsóknastofnun ef grunur er um að laxar séu af eldisuppruna. Eins eru veiðimenn og veiðiréttahafa hvattir til að gera átak í hreistursýnatöku og skila inn til greiningar á stofnuninni. Fram kemur að í ljósi þeirrar erfðablöndunar sem greinist þurfi að huga að rekköfun í ám í því skyni að fjarlægja eldislaxa og meta stærð villtra laxastofna.
Skýrsluna má finna hér.