Ný grein um tengsl hvala og loðnu

Hnúfubakur við Íslandsstrendur. Hnúfubakur við Íslandsstrendur.

Nýlega birtist grein í tímaritinu Marine Biology sem ber heitið Tengsl útbreiðslu hvala og loðnu við Austur-Grænland að hausti (e. Spatiotemporal co-occurrence of whales and capelin on the east Greenland shelf during autumn). Höfundar eru Guðjón Már Sigurðsson, Valerie Chosson, og Warsha Singh sem öll starfa á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar og Teunis Jansen hjá grænlensku náttúrufræðistofnuninni, en auk þeirra er Gísli Víkingsson heitinn sem hóf þessa rannsókn á sínum tíma meðal höfunda.

Þar kemur fram að síðustu þrjátíu ár hafa orðið verulegar breytingar á vistkerfi hafsvæðisins milli Íslands og Austur-Grænlands, þar sem lykiltegundir eins og loðna hafa færst norður á við. Eins hefur dreifing sjávarspendýra breyst og jafnvel talað um að kerfið hafi farið fram fyrir vendipunkt (e. regime shift). Í þessari grein var samband hvala og loðnu á tímum þessara breytinga rannsakað. Tilgátan var að hvalir myndu áfram finnast í meiri mæli þar sem loðna er til staðar þrátt fyrir þessar breytingar í útbreiðslu loðnunnar, og þá helst hvalir sem eru þekktir fyrir að éta loðnu.

Gögnum var safnað í loðnuleiðöngrum að hausti 2017 og 2018 á hafsvæðinu, þar sem loðna var mæld með bergmálsmælingum og hvalir taldir kerfisbundið. Alls voru sáust 1313 skíðishvalir og 824 tannhvalir. Algengustu tegundirnar voru langreyður, hnúfubakur og grindhvalur. Greining sýndi að hvalir fundust oftar þar sem loðna var til staðar, sérstaklega skíðishvalir. Almennt var sambandið milli loðnu og hvala veikt (11% af skýrðri dreifni) en var mun sterkara fyrir tegundir sem þekktar eru fyrir að éta loðnu: hnúfubakur (27%), hrefna (49%), en minna hjá langreyðar (14%) og tannhvölum.

Niðurstöðurnar benda til þess að hvalir fylgi breytingum í útbreiðslu loðnunnar og að bæði át á loðnu og samkeppni um dýrasvif eigi sér stað. Til að staðfesta át er mælt með frekari rannsóknum, t.d. með stöðugum samsætugreiningum.

Greinina í Marine Biology má finna hér. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?