Vegfarendur í austurhluta Reykjavíkur kunna að hafa tekið eftir því að á undanförnum vikum hafa hvalaskoðunarskip verið á sundunum
kringum Viðey. Þar hafa hnúfubakar haldið sig og fékk Hafrannsóknastofnun að því spurnir að þar væru einnig þéttar fiskilóðningar sem þeir væru væntanlega að éta úr. Þetta vakti áhuga þar sem talið var mögulegt að um síld gæti verið að ræða. Af þeim sökum var ákveðið að fara í stuttan leiðangur til að kanna málið nánar.
Hafrannsóknastofnun leigði bát Háskóla Íslands, Sæmund fróða í leiðangurinn og var haldið frá Grandahöfn í birtingu að morgni föstudagsins 5 desember. Siglt var um Viðeyjarsund og nærliggjandi svæði, umhverfis eyjuna, og dýptarmælir bátsins notaður til að staðsetja þéttar lóðningar við sjávarbotn.
Við mælingar fundust þéttar torfur nálægt botni í Viðeyjarsundi, þó á tiltölulega litlu svæði. Eftir að svæðið hafði verið kannað nánar og lóðningarnar afmarkaðar voru net lögð tvisvar beint í torfurnar til að sjá hvaða tegund væri þar á ferð.
Veiðarnar sýndu að brislingur var ríkjandi í lóðningunum. Í fyrri netalögninni, þar sem notuð voru net með bæði stórum og litlum möskvum, veiddust aðeins nokkrir brislingar. Í þeirri seinni, þar sem netið var eingöngu með smáum möskvum, veiddust um 60 brislingar (13-16 cm) og ein ýsa.
Brislingur er uppsjávar- og torfufiskur. Hann heldur sig á grunnsævi, oft nærri ströndum en hann finnst einnig dýpra. Brislingur er tiltölulega ný tegund við Ísland sem hefur fundist í vaxandi mæli frá árinu 2017 og má lesa nánar um hann hér.