Afdrif og áhrif þörungaeiturs í fæðukeðju sjávar

Afdrif og áhrif þörungaeiturs í fæðukeðju sjávar

Hafrannsóknastofnun tekur þátt í stóru alþjóðlegu verkefni um þörungaeitur í fæðukeðju sjávar á norðurslóðum á tímum loftslagsbreytinga (e. Marine phycotoxins in the Arctic: an emerging climate change risk). Vinnuheiti verkefnisins er "PHATE". Um er að ræða viðamikið verkefni um sjálfbæra þróun og fæðuöryggi á norðurslóðum.

Verkefnið er styrkt í gegnum samkeppnissjóð NordForsk um þróun til sjálfbærni á norðurheimskautsslóðum. Um 200 umsóknir bárust og var PHATE eitt af níu verkefnum sem hlutu brautargengi, sjá hér. Sara Harðardóttir, þörungafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, og Auður Aðalsteinsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit, leiða rannsóknina á Íslandi. Sjá hér umfjöllun um þann hluta verkefnisins sem snýr að rituðum heimildum um viðhorf Íslendinga til skelfisks. 

Útbreiðsla eiturþörungs við Ísland og samspil við dýrasvif og loðnu rannsakað

Loftslagsbreytingar hafa ýmiss konar áhrif á umhverfi sjávar svo sem hækkandi hitastig, bráðnun jökla, minnkandi útbreiðslu hafíss og súrnun sjávar. Þessar breytingar leiða til röskunar á vistkerfum, svo sem útbreiðslu og samsetningu tegunda, tímasetningu lykilatburða eins og vorblóma svifþörunga og röskun á sambandi rándýra og bráðar. Loftslagsbreytingar hafa í för með sér aukinn vöxt og tíðni blóma svifþörunga. Sumar tegundir svifþörunga eru skaðlegar í fæðukeðju hafsins og eiturþörungar eru hættulegir mönnum. Útbreiðsla eitraðra svifþörungategunda og tíðni skaðlegra blóma virðist hafa aukist undanfarna áratugi og hafa loftslagsbreytingar haft neikvæð áhrif þar á.

Kísilþörungar af ættkvísl Pseudo-nitzschia framleiða taugaeitrið domóínsýru. Eitrun af völdum domóínsýru veldur til dæmis minnisleysi, heilaþoku og ruglingi hjá mönnum. Áhrifin geta verið varanleg og eitrunin getur leitt til dauða. Það er vitað að domóínsýra hefur áhrif á miðtaugakerfi ýmiss konar sjávarlífvera en lítið er vitað um afdrif eða áhrif eitursins á fæðuvef í hafinu í kringum okkur.

Einstakt tækifæri hefur skapast vegna þess að starfsfólki tilraunastöðvar Hafrannsóknastofnunar í Grindavík tókst að rækta loðnu allan lífsferilinn, frá klaki að fullorðnum fiski. Þessi árangur opnar möguleika á að rannsaka hvort þörungaeitur safnist upp í loðnu og hvaða áhrif það getur haft á þessa mikilvægu tegund.

Á nýja rannsóknaskipinu HF Þórunni Þórðardóttir er sérútbúið hitastýrt herbergi og þar verða framkvæmdar tilraunir á því hvort dýrasvifið hafi áhrif á eiturmyndun í Pseudo-nitzschia og einnig hvort eitrið hafi áhrif á lífeðlisfræði dýrasvifsins. Skoðað verður í hvaða mæli þörungaeiturefnið safnast upp í lykiltegundum eins og rauðátu, ljósátu og náttátu. Einnig munum við safna sýnum í loðnuleitarleiðöngrum.

Fjölþjóðlegt samstarfsverkefni

Þátttakendur hjá Hafrannsóknastofnun eru Teresa Silva , sérfræðingur í dýrasvifi og verkefnastjóri loðnu, Tómas Árnason sjávarútvegsfræðingur og Sara Harðardóttir svifþörungafræðingur. Einnig verður ráðinn doktorsnemi til þriggja ára í samstarfi við Kaupmannahafnarháskóla, sjá nánar hér. Hafrannsóknastofnun mun sjá um sýnasöfnun sem nýtast í fleiri verkefnum PHATE en helsta hlutverk stofnunarinnar er leiðbeina doktorsnemanum við rannsóknir. Alls koma um 50 vísindamenn að verkefninu í alþjóðlegu samstarfi stofnana og háskóla í Færeyjum, Grænlandi, Danmörk, Noreg og Kanada, Nunatsiavut og Nunavik. Verkefninu er stjórnað af Sofia Ribeiro hjá GEUS dönsku jarðfræðistofnuninni og Audrey Limoges hjá New Brunswick-háskóla í Kanada.

 

 

 

 

 

Þátttakendur á Íslandi eru Teresa Silva, sérfræðingur í dýrasvifi og loðnu, Tómas Árnason sjávarútvegsfræðingur, Sara Harðardóttir svifþörungafræðingur en Teresa, Tómas og Sara starfa öll hjá Hafrannsóknastofnun. Einnig Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Þingeyjarsveit. 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?