Málstofa 15. desember kl. 12:30

Eva Dögg Jóhannesdóttir. Eva Dögg Jóhannesdóttir.

Fimmtudaginn 15. desember kl. 12:30 verður málstofa Hafrannsóknastofnunar haldin í fundarsal á 1. hæð að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði.

Eva Dögg Jóhannesdóttir flytur erindið: Lúsasmit og heilsufar villtra laxfiska á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Erindi verður streymt á YouTube síðu Hafrannsóknastofnunar.


Ágrip
Laxalús (Lepeophtheirus salmonis) og fiskilús (Caligus elongatus) eru náttúruleg sníkjudýr á villtum laxfiskum.
Athuganir erlendis frá benda til að lúsasmit aukist á villtum laxfiskum í nágrenni við laxfiskaeldi í sjó. Sjókvíaeldi á laxi hefur verið í veldisvexti á bæði Vestfjörðum og Austfjörðum síðustu árin en firðirnir eru nær einu svæðin þar sem leyft er sjóeldi á laxi við strendur Íslands.

Verkefnið hófst formlega í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Keldur árið 2021 þegar styrkur fyrir þriggja ára verkefni fékkst frá Umhverfissjóði Sjókvíaeldis til vöktunar á bæði Vestfjörðum og Austfjörðum. Sýnum úr villtum laxfiskum hefur þó verið safnað í einum eða fleiri fjörðum Vestfjarða árin 2014 og 2017-2020 og í Eskifirði 2020. Þetta er því fyrsta langtímaverkefnið sem farið hefur verið í ásamt því að vera það yfirgripsmesta bæði þegar litið er til fjölda staðsetning og umfangs sýnatöku úr fiskum.
Bæði árin veiddust bleikja, sjóbirtingur og lax ásamt regnbogasilung og hnúðlax árið 2021 og var fiskurinn almennt heilbrigður og ekki fundust sjúkdómsvaldandi veirur í fiskum. Á Austfjörðum fundust engar lýs nema árið 2021. Lýs var að finna í öllum fjörðum sem veitt var í á Vestfjörðum bæði árin nema í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi árið 2021 en ekki náðist að veiða þar í ár.

Vöktun villtra laxfiska í sjó er mikilvæg í ljósi þess að laxeldi virðist vera komið til að vera og mun að líkum aukast á komandi árum.

Abstract
Salmon louse (Lepeophtheirus salmonis) and sea louse (Caligus elongatus) are natural parasites on wild salmonids.

Research abroad has indicated that lice on wild salmonids are more abundant in areas where salmonids are farmed in sea. Farming of salmon in the fjords of the Icelandic Westfjords and Eastfjords has grown exponentially over the last years as they are almost the only sites where sea farming of salmon is allowed at the Icelandic coastline.

This project was formally started in collaboration with the Marine and Freswater Research Institute and the Institute for Experimental Pathology at Keldur in 2021 when funding was approved for a three-year project. Although samples have been collected in one or more fjords in the Westfjords in the years 2014 and 2017-2020 as well as in Eskifjordur in 2020. This is therefor the first long-term project which has been started and the most extensive regarding sampling the fish.

Arctic char, sea trout and salmon were caught both years together with stealhead and pink salmon in 2021. In general, they were all healthy with no pathogenic viruses found. In the east no lice were found in 2022 whereas lice were found in all fjords sampled in the Westfjords except in Skotufjordur in Isafjardardjup in 2021 where there was not possible to fish in 2022.

It is important to monitor wild salmonids in sea as sea farming of salmon seems to be here to stay and will probably only continue to grow.Um Evu Dögg
Eva Dögg Jóhannesdóttir lauk BSc gráðu í líffræði frá Háskólanum í Kaupmannahöfn árið 2010 og hóf ári síðar störf hjá Náttúrustofu Vestfjarða þar sem hún starfaði helst við rannsóknir tengdum umhverfisáhrifum sjókvíaeldis. Hún framkvæmdi fyrstu lúsa athuganir á eldisfiskum hjá Arctic Fish og Arnarlaxi í störfum sínum hjá Náttúrustofunni, en slíkar athuganir höfðu ekki formlega farið fram fyrr en sumarið 2015. Þá var ljóst að lítið sem ekkert var vitað um smit á villtum laxfiskum og þá hvort slík smit hefðu aukist eftir að eldi hófst.

Árið 2019 lauk hún meistaranámi frá Háskólanum á Hólum og fjallaði lokaverkefni hennar um lúsasmit á villtum laxfiskum á sunnanverðum Vestfjörðum. Sýnatökur fóru fram árið 2017 og hefur Eva stundað veiðar á villtum laxfiskum í sjó nær óslitið hvert sumar síðan til að athuga lúsasmit og almennt heilsufar með aðstoð Hafrannsóknastofnunar, Keldna, Fiskistofu, laxeldisfyrirtækja og síðast en ekki síst með styrk frá Umhverfissjóði Sjókvíaeldis. Samhliða námi á Hólum starfaði Eva einnig sem verkefnastjóri hjá RORUM og síðan sem líffræðingur hjá Arctic Fish.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?