Vöktunarrannsóknir laxfiska í Langadalsá 2022 - HV2023-32

Nánari upplýsingar
Titill Vöktunarrannsóknir laxfiska í Langadalsá 2022 - HV2023-32
Lýsing

Ágrip

Stofn laxfiska í Langadalsá hefur verið vaktaður frá 2013 og er hér greint frá niðurstöðum ársins 2022. Markmið vöktunar er að meta útbreiðslu laxa og annarra laxfiska á seiðastigi, auk þess að fylgjast með stofnstærð og veiði fullorðinna laxfiska, þar sem sérstaklega er fylgst með hlutdeild hugsanlegra eldislaxa í laxagöngum.

Seiðarannsóknir fóru fram 30. ágúst á sex stöðum og veiddust seiði laxa, bleikju auk hornsíla. Laxaseiði voru ríkjandi í ánni, samanlögð seiðavísitala allra árganga laxa var að meðaltali 21,2/100 m2 og var á bilinu 9,6 – 33,9 seiði/100 m2 á einstökum veiðistöðum. Alls komu fram fimm seiðaárgangar laxaseiða (0+ - 4+). Seiðavísitala bleikjuseiða (0+ - 3+) í ánni allri mældist að meðaltali 1,4 seiði/100 m2.

Árið 2022 veiddust 68 laxar í Langadalsá, sem skiptist í 50 árslaxar úr sjó og 17 tveggja ára laxar en upplýsingar um stærð vantaði hjá einum laxi. Alls var 86% smálaxa og 88,2% stórlaxa sleppt í veiðinni. Athygli vakti mjög hátt hlutfall hænga hjá smálaxi (82%) en hrygnur voru 82,4% stórlaxaveiðinnar. Árin 2019 – 2022 hafa verið slök veiðiár í Langadalsá þar sem veiðin hefur verið um og undir 100 löxum og hefur veiðin einungis náð um helmingi af langtíma meðalveiði á þessum árum.

Árið 2022 var nettógangan um fiskteljarann 70 laxar, 52 bleikjur og 1 urriði. Þá komu fram 2 hnúðlaxar fram á teljaranum sem gengu báðir niður aftur um fiskteljarann í Langadalsá. Alls veiddust 61 laxar ofan við fiskteljarann og svo hátt veiðihlutfall af göngunni bendir til að laxar hafi náð að stökkva upp fyrir girðinguna í töluverðum mæli. Talningar 2022 eru því ekki taldar marktækar sumarið 2022 em áfram hefur verið unnið að lagfæringum til að tryggja að öll gangan fari um teljarahólfið. Ekki varð vart við strokulaxa úr sjókvíaeldi á göngu um teljarann 2022 og ekki er vitað til þess að eldislax hafi komið fram í stangveiðinni 2022.

Hrognafjöldinn í Langadalsá árið 2022 var áætlaður rúmlega 216.000 hrogn sem svarar til þess að hrognamagnið hafi verið um 0,3 hrogn á hvern fermetra botnflatar í ánni. Alls er áætlað að haustið 2021 hafi 13 smálaxahrygnur og 14 stórlaxahrygnur orðið eftir til hrygningar eftir veiðitíma og þar af var hlutdeild stórlaxahrogna í hrygningunni metin 67,3%. Vegna mikillar lægðar í laxagöngum í Langadalsá undanfarin ár hefur verulega dregið úr hrygningunni og lágt hlutfall smálaxahrygna 2022 hafði einnig mjög neikvæð áhrif á hrognamagn árinnar. Þrátt fyrir að nær öllum laxi sem veiðist í ánni undanfarin ár sé sleppt er laxahrygning talin of lítil í ánni til að framleiðslugeta búsvæða nýtist og lagt til að áfram verði öllum laxi sem veiðist sleppt til að verja hrygningarstofninn eftir mætti.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn Sigurður Már Einarsson
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2023
Tölublað 32
Blaðsíður 20
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
ISBN 2298-9137
Leitarorð lax, bleikja, urriði, seiðarannsóknir, fisktalning, stangveiði, laxahrygning
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?