Laxá í Aðaldal 2021 og 2022. Seiðabúskapur og veiði HV 2023-26

Nánari upplýsingar
Titill Laxá í Aðaldal 2021 og 2022. Seiðabúskapur og veiði HV 2023-26
Lýsing

Ágrip

Í Laxá í Aðaldal voru skráðir 401 lax 2021 og 433 2022 sem er um 29% af meðalveiði áranna 1974 – 2022, sem er 1.372 laxar. Um er að ræða ár lítilsháttar aukningu frá árinu 2020 þegar 388 laxar veiddust sem var minnsta laxveiði sem skráð hefur verið í Laxá í Aðaldal. Hafa þarf í huga að á síðustu árum hefur langstærstum hluta veiddra laxa verið sleppt og því er að hluta til um að ræða fiska sem veiddir voru oftar en einu sinni. Ef veiðitölur eru notaðar sem vísitala fyrir stofnstærð og samanburð við fyrri ár er stofninn í raun enn minni miðað við þegar öllum fiski var landað. Nokkuð líkur taktur var í veiði á laxi og silungi, urriða og bleikju, í Laxá í Aðaldal fram til ársins 2003 en eftir það hefur bleikjuveiði minnkað. Veiði á urriða hefur sveiflast nokkuð á milli ára einkum síðustu ár. Mun meira var veitt af urriða 2022 (1.126) sem er aðeins yfir skráðu langtíma meðaltali (1.012). Vert er að gefa þessum breytingum gaum m.t.t. þess hvaða breytingar hafa orðið á samsetningu- og líffræði urriða og bleikju í Laxá og/eða veiðiskráningu.

Af þeim 433 löxum sem veiddust árið 2022 voru 234 (54%) smálaxar (eitt ár í sjó) og 199 (46%) stórlaxar (tvö ár í sjó og eldri). Alls veiddust 252 hængar og 181 hrygna. Veiðin skiptist þannig að 189 hængur kom eftir eitt ár í sjó en 45 hrygnur. Eftir tvö ár í sjó veiddust 63 hængar og 136 hrygnur. Meðalþyngd smálaxa var 2,81 kg hjá hængum og 2,42 kg hjá hrygnum. Meðalþyngd stórlaxa var hjá hængum um 6,7 kg og hrygnum 6,3 kg. Síðustu tvö ár hefur veiðin í Laxá verið skráð rafrænt með smáforriti AnglingIQ og eru númer og nöfn veiðistaða breytt frá því sem áður var. Vert er huga að samræmingu á nöfunum og númerum veiðistaða til að auðvelda samanburð á milli svæða ekki síst þar sem breytingar hafa orðið á tilhögun veiði á einstaka veiðisvæðum.

Þéttleiki laxaseiða á rafveiðistöðum í Laxá var mældur á níu stöðum í Laxá í Aðaldal síðsumars 2021 og 2022 (1. mynd, viðauki I). Þéttleiki seiða var mjög breytilegur milli staða bæði 2021 og 2022. Að meðaltali veiddust 15,7 laxaseiði á hverjum 100 m2 2021 og 12,3 2022. Vísitala fyrir þéttleika vorgamalla seiða var 11,5 2021 og 7,9 2022. Vísitala þéttleika ársgamalla og eldri laxaseiða á hverja 100 m2 var 4,2 2021 og 4,4, 2022. Þessi vísitala er litlu lægri en verið hefur síðustu ár og því takmörkuð batamerki að sjá hvað það varðar. Aftur á móti hefur vísitala vorgamalla seiða farið vaxandi sem bendir til þess að viðkoma hafi aukist samfara aukinni hrygningu með veiða og sleppa.

Nokkur breytileiki var í þéttleika urriðaseiða milli veiðisvæða. Alls veiddust 244 urriðaseiði á þeim 1.162 m2 sem veitt var á og var vísitala þéttleika 21,1 seiði á hverja 100 m2 2021 og 235 seiði á 1.285 m2 2022. Þéttleiki urriðaseiða hefur haldist svipaður frá 2020. Alls veiddust 185 ársgömul seiði 2021 og 145 2022. Vísitala þéttleika ársgamalla og eldri laxaseiða var alls 5,1 seiði á hverja 100 m2 2021 og 4,4 2022. Lengstu samfelldar seiðamælingar hafa verið gerðar á rafveiðistöðvum við Hólmavað, Jarlsstaði, Núpa og Eskey og voru þær lagðar til grundvallar við samanburð á vísitölu tilvonandi gönguseiða sem væntanlega ganga út vorið á eftir. Þéttleiki tilvonandi gönguseiða (vísitala) á þeim rafveiðistöðvum var 3,8 2021 en 5,7 2022. Á tímabilinu frá 1985-2022 hefur seiðavísitala verið að meðaltali um 6,7 tilvonandi gönguseiði á hverja 100 m2 botnflatar í rafveiði mælt sem vísitala með einni yfirferð í rafveiði. Seiðavísitölur fyrir laxaseiði eru því áfram lágar í samanburði við árin fyrir 2000. Vísitala vorgamalla laxaseiða 2021 og 2022 er nærri langtímameðaltali sem er 12,4.

Hreistursýni bárust af alls 22 löxum 2019 sem var um 4,3 % af veiddum fiskum. Af þeim voru 19 greind og voru 18 (94,8%) greind sem villtur lax en eitt (5,2%) af laxi með upprunaúr sleppingum gönguseiða. Engin hreistursýni bárust til aldursgreininga 2020. Sumarið 2021 voru greind 13 af 15 sýnum sem var um 3,7 % af veiddum fiskum og voru þau öll af villtum löxum. Mun fleiri sýni voru tekin 2022 eða af alls 95 löxum sem var um 22 % af veiddum fiskum og 77 greind. Af hreistursýnum voru 69 (89,6%) greind sem villtur lax en átta (10,4%) af laxi upprunnum úr sleppingum gönguseiða.

Reynslan hér hefur sýnt að þegar stofnar verða litlir getur uppbygging þeirra tekið mjög langan tíma á nýjan leik. Samfara minnkandi laxgengd í Laxá var farið að sleppa sem næst öllum veiddum laxi með það markmið að stækka hrygningarstofn vatnakerfisins og auka viðkomu. Miðað við lengd lífsferils laxa mun það taka nokkurn tíma miðað við þau afföll laxa í sjó sem verið hafa á síðustu árum. Til að flýta fyrir uppbyggingu hefur varið farinn sú leið að ala upp seiði til kynþroska í eldisstöð og fá þar með viðbót í hrygningarstofninn. Nauðsynlegt er að aðgerðir sem og mögulegur árangur sé vel skilgreindur og mælanlegur. Slíkar aðgerðir þyrftu einnig að ná til hliðaráa Laxár, Reykjadalsár og Mýrarkvíslar en fiskgengd í þær hefur einnig verið langt undir meðaltölum. Á síðustu árum hefur verið safnað seiðum af vatnasvæðinu og þau alinn í eldisstöð fram til kynþroska. Hluti hrogna hefur verið grafinn á vatnasvæðinu og hluti er til seiðauppeldis og síðari sleppinga til að stækka hrygningarstofn árinnar.

Alls var sleppt 20.000 gönguseiðum í Laxá vorið 2021 og 17.000 seiðum af millistærð sem eiga eftir að bæta við sig vexti í ánni. Auk þess voru grafin hrogn úr níu hrygnum haustið 2021 sem gæti verið um 23.000 hrogn undan hrygnum sem voru af undaneldisstofni. Vorið 2022 var sleppt 29.500 gönguseiðum, 20.000 stórseiðum og 95.600 sumaröldum seiðum af undaneldisstofni. Þá voru grafin um 460.000 hrogn, sem voru úr undaneldisstofni, í Laxá haustið 2022. Þau voru alls undan 114 hrygnum af tveimur árgöngum.
Auk þess sem hrogn voru grafin í Laxá voru um 119.000 hrogn grafin í Reykjadalsá og um 212.000 í Mýrarkvísl. Þessar aðgerðir miðast við að auka viðkomu laxastofnanna á vatnasvæðinu.

Eldi á undaneldisstofni fylgir talsverður kostnaður og búast má við að nokkur tími líði þar til árangur kemur í ljós. Jafnframt er mikilvægt að inngrip með viðbót af hrygningarstofni úr eldisstöð standi ekki um langan tíma til að forðast að það leiði til skyldleikaræktunar og þrengingar á erfðabreytileika í stofninum.

Hrygningarmarkmið fyrir Laxá ætti að vera yfir 4,0 hrogn á hvern fermetra sem samsvarar um 9,5 milljón hrognum og 910 hrygnum í hrygningarstofni miðað við meðalstærð hrygna og meðaltalshlutföll smálaxa og stórlaxa. Aðgerðarmörk eru við 2,43 hrogn og varúðarmörk við 0,93 hrogn á hvern fermetra botnflatar. Áætlaður hrognafjöldi í hrygningarstofni Laxár var 0,41 hrogn/m2 2021 og 0,71 2022. Ljóst er því að enn er langt í land með að ná fyrri stærð hrygningarstofnsins en meðaltal áranna 2974-2000 var 6,28 hrogn/m2. Aðalviðfangsefni veiðistjórnunar í Laxá er að stækka hrygningarstofn vatnakerfisins til að auka framleiðslu gönguseiða og þar með stærð laxgöngu og veiði. Sú viðbót við hrygningarstofninn sem kemur frá undaneldisstofni hækkar fjölda hrogna í Laxá 2022 úr 0,71 í um 0,92 hrogn á m2 og því til viðbótar koma þau seiði sem sleppt var af undaneldisstofni. Þrátt fyrir þessa viðbót er enn nokkuð í land til að ná hrygningarmarkmiði fyrir Laxá.

Skráarviðhengi Ná í viðhengi
Höfundar
Nafn Guðni Guðbergsson
Flokkun
Flokkur Haf- og vatnarannsóknir (2016-)
Útgáfurit Haf- og vatnarannsóknir
Útgáfuár 2023
Tölublað 26
Blaðsíður 66
Útgefandi Hafrannsóknastofnun
ISBN 2298-9137
Leitarorð Laxá, Reykjadalsá, Mýrarkvísl, stangveiði, seiðaþéttleiki, tengsl hrygningarstofns og nýliðunar, viðmiðunarmörk, varúðarmörk, aðgerðarmörk
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?