Warsha Singh tekur þátt í Alþjóðlegum degi kvenna í marghliða samvinnu UNESCO

Warsha Singh tekur þátt í Alþjóðlegum degi kvenna í marghliða samvinnu UNESCO

Warsha Singh tekur þátt í Alþjóðlegum degi kvenna í marghliða samvinnu UNESCO

Warsha Singh, vistfræðingur á uppsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar, hefur verið valin til að taka þátt í Alþjóðlegum degi kvenna í marghliða samvinnu 2024. Viðburðurinn er á vegum menningar- og menntamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og verður haldinn 25. janúar nk. í höfuðstöðvum þeirra í París.

Þema fundarins er Jafnrétti kynjanna í þágu lausna gegn loftslagsvánni. Dagurinn beinir sjónum að kvenleiðtogum í marghliða samtarfi og hvetur til hnattræns samtals um marghliða lausnir á kynjamisrétti, sem aftrar viðbrögðum gegn loftlagsvánni.

„Loftslagsváin er ekki hlutlaus þegar kemur að stöðu kynjanna. Raunin er sú að rof á vistkerfum jarðarinnar hefur hlutfallslega meiri áhrif á konur og stúlkur.“ .. „ Tilgangur fundarins er að beina sjónum að grundvallarhlutverki kvenna í að stuðla að mannréttindum, friði og sjálfbærri þróun í marghliða kerfum. Alþjóðlegur dagur kvenna í marghliða samvinnu boðar aukna þátttöku kvenna í mikilvægum ákvörðunum sem móta og hrinda marghliða stefnumálum í framkvæmd. Ásamt því að tryggja að marghliða samvinna gagnist konum og stúlkum með kynbreytilegum aðgerðum og samþykktum.“ Af vef UNESCO um viðburðinn en þar má kynna sér daginn betur.

Á viðburðinum verða kynnt hlutverk kvenna í vísindalegum uppgötvunum, varðveislu vistkerfa og viðleitni til að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika. Enn fremur verður sjónum beint að aukinni þátttöku kvenna í stjórnsýslu sem og stjórnun náttúruauðlinda og vatns.

Um Wörshu Singh

Warsha Singh er með doktorsgráðu í vistfræðilegri líkanagerð og hefur hún mikinn áhuga á rannsóknum og vísindalegri fræðslu. Hún ólst upp á Fiji eyjum og býr nú og starfar á Íslandi; tveimur gjörólíkum eyjum sem hafa fengið að kenna á loftslagsbreytingum með ólíkum hætti. Bakgrunnur hennar felst m.a. í líkanagerð sem byggir á fiskveiðigögnum og mati á stofnstærðum.

Á fundinum mun Warsha ræða mikilvægi jafnréttis í sjálfbærri stjórnun hafsvæða og hafvísindum og þörfina fyrir stefnur sem þurfa að taka mið af samtvinnun þessara mála. Einnig mun hún ræða þær óvenjulegu áskoranir sem blasa við til að hægt verði að ná jafnrétti kynjanna. Hún skoðar þær m.a. út frá tveimur ólíkum stöðum á jarðkringlunni, þar sem hlutverk kvenna í hafvísindum er mikilvægt.

Um þessar mundir er Warsha að vinna að þróun skipulags fyrir samþætt mat á vistkerfum á íslenska hafsvæðinu. Hún hefur að auki reynslu af vinnu og kennslu fyrir Sjávarútvegsskóla Gró sem starfar undir merkjum UNESCO í samstarfi við Hafrannsóknastofnun.

Fundinum verður streymt hér.

Hér má sjá nöfn annarra kvenna sem taka þátt í umræðunni ásamt Wörshu Singh.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?