Um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar

Ljósm. SJó Ljósm. SJó

Í nýlegri grein frá Magnúsi Jónssyni sem birtist í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „Furðuleg fiskveiðiráðgjöf“ eru vinnubrögð stofnunarinnar gagnrýnd. Sérstaklega er bent á skort á samtali auk þess að gagnrýnt er að stofnunin haldi um alla þræði rannsókna frá mælingum til ráðgjafar. Í ljósi þessarar gagnrýni teljum við að fara þurfi yfir nokkur þeirra atriða sem Magnús gagnrýnir og lýsa vinnulagi við kynningar ráðgjafar og aðdraganda hennar.

Í inngangi greinar sinnar opnar Magnús með því fjalla um stöðvun strandveiða þann 21. júlí sl. Telur hann að grunnur þeirrar ákvörðunar hafi legið m.a. í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Slík ályktun verður að teljast ákaflega langsótt og byggð á misskilningi höfundar eða vanþekkingu á starfsemi stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun kemur ekki að að neinu leyti að úthlutun aflaheimilda til strandveiða, né að öðrum ákvörðunum um það innan hvaða kerfis fiskveiðistjórnunar aflaheimildum er úthlutað.

Hafrannsóknastofnun er rannsókna- og ráðgjafarstofnun. Umgjörð og hlutverk stofnunarinnar er ákvarðað af lögum sem samþykkt voru af Alþingi árið 2015. Markmið laganna er að efla vísindalega þekkingu á umhverfi og lifandi auðlindum í hafi og ferskvatni og stuðla í senn að sjálfbærri og arðbærri nýtingu auðlindanna. Eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar er því að „veita stjórnvöldum og hagsmunaaðilum ráðgjöf og þjónustu varðandi sjálfbæra nýtingu á lifandi auðlindum í sjó og ferskvatni á grundvelli sjálfbærra viðmiða og nýtingarstefnu stjórnvalda.“ Stofnunni ber einnig að miðla upplýsingum til stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings um sjálfbærar nytjar á íslensku hafsvæði, í ám og vötnum, greina frá niðurstöðum rannsóknastarfseminnar og veita aðgang að gögnum stofnunarinnar eftir því sem tök eru á. Í samræmi við framangreint hefur stofnunin kappkostað að koma sem bestum upplýsingum á framfæri í gegnum heimasíðu stofnunarinnar, með kynningum og þátttöku á fundum þar sem málefni stofnunarinnar ber á góma.

Störf Hafrannsóknastofnunar eru oft umræðuefni í þjóðfélaginu, og hefur sitt sýnst hverjum þegar kemur að ráðgjöf um aflamark. Það er ekki óeðlilegt þegar um jafn mikilvægan hlut fyrir íslenskt atvinnulíf og sjávarútveg er að ræða. Hafrannsóknastofnun hefur því ætíð lagt sig í líma við að kynna rannsóknir sínar og ráðgjöf á heimasíðu stofnunarinnar (hafogvatn.is) og með opnum fundum sem einnig er streymt á veraldarvefnum þannig að öll þjóðin geti mætt á þá fundi og kynningar. Stofnunin er auk þess ávallt reiðubúinn til þess að ræða við hagsmunaaðila um þá þætti sem snúa að ráðgjöf hennar og rannsóknum og svara spurningum þar um. Fundir með mismunandi hópum þar sem ítarlega er farið yfir ákveðnar tegundir eða afmörkuð málefni eiga sér stað reglulega og leiða oft til aukins skilnings fundarmanna á aðferðafræði stofnunarinnar og þeim gögnum sem notuð eru við mat á stærð stofna. Fundirnir geta einnig verið mjög gagnlegir fyrir starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og auka m.a. skilning þeirra á þeim gögnum sem safnað er af sjómönnum.

Hafrannsóknastofnun birtir árlega veiðiráðgjöf á vef sínum fyrir á um fjórða tug stofna, auk þess sem að forsendur ráðgjafar eru reifaðar ásamt lýsingu á þeim gögnum sem undirbyggja ráðgjöfina í ítarlegum ráðgjafar- og tækniskýrslum. Þar má einnig finna inntaksgögn fyrir stofnmatslíkön sem uppfærð eru á sama tíma og ráðgjöfin er birt. Ráðgjöf stofnunarinnar um aflamark okkar mikilvægustu fiskistofna er byggð á aflareglum stjórnvalda sem er ætlað að tryggja að stofn haldist fyrir ofan varúðarmörk auk þess að leiða til hámarks nýtingar stofna til lengri tíma litið. Aflareglur eru mismunandi eftir því hvaða stofn er um að ræða og taka tillit til eiginleika fiskistofna þ.m.t framleiðslugetu og aldurssamsetningu. Þegar aflareglur hafa verið innleiddar af stjórnvöldum felst í því yfirlýsing um að ráðgjöf skuli fylgt og ekki skuli vikið frá reglunni á meðan sú regla er í gildi. Ef stjórnvöld ákveða að víkja frá reglunni eitt ár, t.d. með því að auka aflaheimildir í þorski um 2000-3000 tonn umfram það sem aflaregla kveður á um er nokkuð ljóst að það mun hafa takmörkuð áhrif til skamms tíma en ef slík framúrkeyrsla yrði gerð að reglulegum viðburði má segja að aflareglunni sé ekki lengur fylgt og því ekki víst að reglan standist markmið um sjálfbærni, sem er einn af hornsteinunum við setningu slíkra reglna. Það er þó alltaf ákvörðun stjórnvalda hvort og hvernig aflareglu er fylgt en Hafrannsóknastofnunar að ráðleggja samkvæmt samþykktum reglum og að meta áhrifin af því sé vikið frá samþykktum reglum.

Hafrannsóknastofnun starfar í alþjóðlegu vísindaumhverfi og ráðgjöf stofnunarinnar byggir á alþjóðasamþykktum, þ.m.t. samþykktum Sameinuðu þjóðanna um varúðarnálgun við stjórn fiskveiða. Fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er að mestu unnin innan vébanda Alþjóða hafrannsóknaráðsins þar sem aðferðafræði og niðurstöður útreikninga eru rýnd af hópi alþjóðlegra sérfræðinga. Að því loknu er ráðgjöf um aflamark gefin út og ráðlagt aflamark gefið í tonnum. Það virðist gæta misskilnings varðandi nákvæmni ráðgjafar þar sem ráðlagt aflamark er ekki námundað að næsta þúsundi eða tugþúsundi tonna heldur er sú útkoma sem kemur úr líkönunum kynnt. Það má þó ekki túlka sem mælikvarða á vissu heldur er þetta gert til þess að tryggja samræmi í framsetningu ráðgjafar og komast hjá álitamálum hvernig aflamark var námundað frá ári til árs, líkt og tíðkaðist á árum áður.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?