Stofnmæling hrygningarþorsks með þorskanetum (SMN) 2021

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Út er komin skýrsla um netarall sem fór fram dagana 25. mars til 27. apríl 2021.

Í skýrslunni eru sýndar lífmassavísitölur helstu fisktegunda er fást í netaralli, ásamt útbreiðslu háfiska, krabba, sjófugla og sjávarspendýra. Einnig er fjallað um merkingar á hrygningarþorski sem fram hafa farið í netaralli síðustu tvö ár og gerð grein fyrir fyrstu niðurstöðum.

Stofnvísitala hrygningarþorsks við Ísland hefur verið há frá árinu 2011 og náði hámarki árin 2015-2018. Hún hefur lækkað aftur síðustu tvö ár og er orðin svipuð og árið 2011. Rekja má lækkun stofnvísitölunnar til þess að árgangur 2013 (8 ára) er lítill og minna fékkst af 9 ára fiski en undanfarin fjögur ár. Lækkun stofnvísitölu er mest í Breiðafirði og Faxaflóa en það eru svæðin sem mest hafa lagt til hækkunar stofnvísitölu síðastliðinn áratug. Breytingar á stofnvísitölu eru mun minni á öðrum svæðum. Undanfarin ár hefur orðið aukning á hrygningu þorsks fyrir suðaustan og norðan land en kanturinn fyrir austan Eyjar sker sig áfram úr og lítið fæst af þorski þar. Ágætt samræmi er á þróun stofnvísitalna þorsks úr SMN og stofnmælingum með botnvörpu í mars og október (SMB og SMH). Einnig er sterkt samband milli aldursskiptra fjöldavísitalna hrygningarþorsks úr SMN og fjölda eftir aldri í hrygningarstofni skv. stofnmati, sem sýnir að netarall gefur góða mynd af stærð hrygningarstofnsins á hverjum tíma.

Ástand þorsks (hér metið sem slægð þyngd og þyngd lifrar miðað við lengd) er um eða undir meðaltali tímabilsins 1996-2021. Talsverður breytileiki er þó á ástandi á milli svæða, aldurs og lengdarflokka. Verulegar breytingar hafa orðið á meðalþyngd þorsks eftir aldri á rannsóknartímanum. Meðalþyngd hefur aukist við vestanvert landið og við Norðurland, en dregið hefur aftur úr henni síðustu ár. Meðalþyngd þorsks eftir aldri við Suðausturland var há í byrjun, fór síðan lækkandi en hefur aukist aftur. Kynþroskahlutfall eftir aldri breytist ekki mikið hjá algengustu aldurshópum milli ára. Hlutfall hrygnandi þorskhrygna og hrygna sem lokið höfðu hrygningu var hærra á flestum svæðum en síðastliðin tvö ár.

Stofnvísitala ufsa í netaralli hefur lækkað frá hámarki ársins 2019 og er nú svipuð og árið 2015. Hækkun stofnvísitölu 2019 var vegna mikillar aukningar á ufsa í Fjörunni og á Bankanum, en minni breytingar voru á öðrum svæðum. Mest fæst af 7-11 ára ufsa í netaralli og árgangur 2012 (nú 9 ára) hefur verið mest áberandi undanfarin ár. Af breytingum á stofnvísitölum annarra fisktegunda í netaralli má helst nefna að vísitala ýsu hefur verið há síðustu 5 ár og vísitölur hrognkelsis og skarkola mældust þær hæstu frá 2002. Vísitala lúðu lækkar á milli ára eftir að hafa hækkað hratt síðustu ár.

Hlekkur á skýrslu HV 2021-31


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?