Skaðsemi botnvörpuveiða á hrygningarslóð síldar

Mynd. Svanhildur Egilsdóttir. Mynd. Svanhildur Egilsdóttir.

Fimmtudaginn 26. maí sl. birti Morgunblaðið svör Hafrannsóknastofnunar við spurningum blaðamanns tengdum mögulegum skaða af botnvörpuveiðum á hrygningarstöðvum síldar við Ísland. Þar sem aðeins hluti af svörum stofnunarinnar var birtur og veigarmiklum atriðum sleppt vill stofnunin birta svörin hér í heild sinni.

Aðdragandi og spurningar Morgunblaðsins
Spurningar blaðamanns Morgunblaðsins má rekja til færslu á vef Landsambands smábátaeigenda um botnvörpuveiðar á sumrin á hrygningartíma síldar á Papagrunni þar sem togað er í gegnum stórar síldartorfur (http://www.smabatar.is/2022/04/togveiar-oaeskilegar-a-hrygnin.shtml). Spurningar blaðamannsins voru eftirfarandi: Hefur Hafrannsóknastofnun fengið slíkar ábendingar? Er eitthvað óeðlilegt við slíkt athæfi að mati stofnunarinnar? Hvaða áhrif hefur slíkt athæfi?

Svör Hafrannsóknastofnunar
Íslenska sumargotssíldin hrygnir á um 50-150m dýpi á svæðinu frá Stokksnesi í austri með suðurströndinni að Snæfellsnesi. Hún hrygnir við botn og eggin límast við undirlagið og er það einkum á malarbotnum þar sem strauma gætir við botn en ekki á sand og leir. Samkvæmt leiðöngrum Hafrannsóknastofnunar á hrygningartíma stofnsins frá fyrri tímum, hrygnir stærsti hluti hans út af Garðskaga.

Hafrannsóknastofnun hefur lengi verið kunnugt að togveiðiskip hafi stundað það í gegnum tíðina að veiða á hrygningarblettum síldar. Það hefur einkum verið ýsa sem er verið að sækja í þar en hún er sólgin í síldareggin, en einnig þorskur og aðrar tegundir. Þessi umræða er heldur ekki ný og má t.d. benda á mál á Alþingi um þetta efni frá árinu 1962 (https://www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=83&rnr=3322).

Áhrif botnvörpveiðarfæra á hrygningu síldarstofnsins er bæði háð áhrifum trollsins á eggin og umfangi þessara veiða. Botntroll sem togað er yfir samlímd egg á botni mun örugglega kremja og þyrla upp eggjum, en um hlutfall eggja sem drepst er ómögulegt að fullyrða mikið um án beinna rannsókna. En hvað um umfangið? Eins og fram hefur komið er helsta hrygningarsvæði síldar við Ísland út af Garðskaga, innan við 12 mílur frá landi sem þýðir að stórum togveiðskipum er ekki heimilt að toga þar samkvæmt lögum um fiskveiðar. Minni togskip hafa leyfi til að toga grynnra, ýmist að 4 eða 6 sjómílna fjarlægð eftir svæðum og árstíma. Hinsvegar liggur ekki fyrir nákvæm kortlagning á hrygningarsvæðum síldarstofnsins og því er ómögulegt að meta umfang veiða á botnfiski á hrygningarsvæðum stofnsins. Skammt vestan við Vestmannaeyjar er þekkt hrygningarsvæði síldar. Skoðun á ýsuafla og sókn með botnvörpu þar sýnir töluverða sókn á því svæði í júní og júlí fram til ársins 2010 en mjög litla síðan þá. Það er því klár vísbending um minni sókn togskipa þar síðasta áratuginn, en leiðangrar hafa sýnt viðveru síldar þar á sama tíma. Á sama hátt benda aflagögn Hafrannsóknastofnunar til lítillar sóknar botnvörpuskipa vestur og norður af Garðskaga á hrygningartíma síldar. Önnur svæði hafa ekki verið skoðuð í þessu tilliti.

Af framansögðu telur Hafrannsóknastofnun ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum botntrollsveiðum á hrygningarslóðum síldarstofnsins meðan að ekki eru vísbendingar um aukningu á slíkri sókn. Framleiðni íslenska sumargotssíldarstofnsins var há á árabilinu 1990 til 2004, með fjölda stórra áraganga. Gögn sýna að árgangar frá árunum 2017 og 2018 séu einnig stórir. Rannsóknir hafa sýnt að þessar sveiflur í stærð árganga ráðast fyrst og fremst af umhverfisaðstæðum þótt stærð hrygningarstofnsins hafi þar líka áhrif. Í þessu samhengi eru áhrif botnveiðarfæra á dauða eggja talin hafa nánast engin áhrif á sveiflur í nýliðun rétt eins og afrán botnfiska á eggjunum. Frekari rannsókna er þó þörf hér, bæði nákvæm kortlagning á hrygningarsvæðunum, sókn togveiðiskipa þar sem og áhrif trolls á botnlífríki (sérstaklega eggja) á malarbotni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?