Sjómælingaleiðangri lokið

Ljósm. Alice Benoit-Catten Ljósm. Alice Benoit-Catten

Þann 19. ágúst lauk 15 daga leiðangri til mælinga á ástandi sjávar á rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni. Vöktun á eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum sjávar er eitt af föstum verkefnum Hafrannsóknastofnunar. Markmið þess er að vakta langtímabreytingar á umhverfisþáttum í hafinu umhverfis Ísland. Í því felast m.a. að gera endurteknar mælingar á hitastigi, seltu, súrnun sjávar og styrk næringarefna á stöðvum kringum Ísland í fjórum rannsóknaleiðöngrum ár hvert. Leiðangrarnir eru farnir vetur, vor, sumar og haust. Að þessu sinni var mælt á 117 stöðvum á sniðum sem ná yfir helstu sjógerðir við landið og inni á fjörðum og flóum.

yfirborðshitamynd

1. mynd. Hiti við yfirborð á tímabilinu 5. – 19. ágúst 2020.

Í sumarleiðangri er einnig sinnt ýmsum tækjabúnaði sem notaður er til sívöktunar á umhverfinu. Hafrannsóknastofnun fylgist nú með straumum á tveimur stöðum á landgrunninu, í Grænlandssundi er mældur yfirfallsstraumur úr Norðurhöfum og á Hornbanka er innflæði Atlantssjávar á Norðurmið mælt. Þetta er gert með straumsjám (ADCP mælum) sem lagt er á hafsbotninn. Þessi tækjabúnaður var tekinn upp í leiðangrinum og lagður á ný eftir aflestur gagna og rafhlöðuskipti.

Í leiðangrinum var einnig sinnt tækjabúnaði í ýmsum samstarfsverkefnum sem Hafrannsóknastofnun tekur þátt í. Þetta eru yfirborðsmælibauja í Íslandshafi sem mælir m.a. sýrustig sjávar og er samvinnuverkefni NOAA og Hafrannsóknastofnunar. Gögn frá þeirri bauju eru aðgengileg í rauntíma (https://www.pmel.noaa.gov/co2/story/Iceland). Tvær mælilagnir á vegum Háskóla Íslands með útbúnaði til að hlusta eftir hvölum voru teknar upp og yfirborðsrekdufl (í samvinnu við bandarískan háskóla) til mælinga á yfirborðshita o.fl. voru sjósett.

Þá var í leiðangrinum sinnt gagnaöflun í verkefni sem lýtur að loðnuungviði þar sem skoðuð eru útbreiðsla, uppruni og afdrif þess.

Niðurstöður mælinga á yfirborðshita og hita á 50 metra dýpi umhverfis landið í ágúst 2020 eru sýndar á 1. og 2. mynd. Að sumri er lagskipting í vatnssúlunni þar sem yfirborðslagið er heitara og ræður þykkt yfirborðslagsins miklu um hita þess. Hiti við yfirborð var 9 til 12 °C við landið sunnanvert en 6 til 10 °C á Norðurmiðum. Lítill munur var á hita milli yfirborðs og 50 metra dýpis í hlýsjónum fyrir sunnan og vestan landið.

Í heildina séð er hiti yfirborðslaga sjávar áþekkur því sem var á síðasta ári. Frekari úrvinnsla á gögnum leiðangursins fer fram á næstu mánuðum og verður kynnt síðar.

hiti, 50 m, dýpi

2. mynd. Hiti á 50 metra dýpi á tímabilinu 5. – 19. ágúst 2020.

mynd af rannsóknafólki

3.  mynd. Vinna við sjósetningu straummælalagnar í Grænlandssundi.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?