Ráðgjöf um veiðar á humri

Ráðgjöf um veiðar á humri

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að afli ársins 2019 verði ekki meiri en 235 tonn svo fylgjast megi með stærðarsamsetningu og dreifingu stofnsins. Jafnframt leggur stofnunin til að allar humarveiðar verði bannaðar í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar uppvaxandi humri. Til að minnka álag á humarslóð ráðleggur Hafrannsóknastofnun einnig til að veiðar með fiskibotnvörpu verði bannaðar á afmörkuðum svæðum í Breiðamerkurdjúpi, Hornafjarðardjúpi og Lónsdjúpi.

Þéttleiki humarholna við Ísland (0.07 holur/m2) mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið veitir ráðgjöf fyrir. Samkvæmt eldri stofnmatsaðferð (VPA), sem beitt var til mats á afrakstursgetu humarstofnsins, er stofnstærð 2019 metin einungis um þriðjungar af gátmörkum (Bpa). Lengdarmælingar úr afla og stofnmælingum benda einnig til nýliðunarbrests á undanförnum árum. Veiðar á 235 tonnum árið 2019 ættu að gefa mynd af útbreiðslu og stærðarsamsetningu stofnsins. Hafrannsóknastofnun mun leita eftir auknu samstarfi við útgerðir um vöktun á humarstofninum, t.d. með sýnatökum og skipulagi veiða.

Stofnmatið í ár er byggt er á stofnmælingu þar sem humarholur eru taldar með neðansjávarmyndavélum og er það í þriðja sinn sem slík stofnmæling er framkvæmd. Stofnmælingin er talin ná utan um öll þau svæði þar sem humar finnst í veiðanlegu magni. Meðalþyngd humra (130 g) er mjög há í sögulegu samhengi og skýrist að mestu af þeim nýliðunarbresti sem verið hefur í humarstofninum undanfarin ár og af því leiðir þessi aukna hlutdeild eldri humars í afla.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?