Niðurstöður loðnumælinga Hafrannsóknastofnunar í janúar

Úr loðnuleiðangri í janúar 2022. Ljósm. Kristján H. Kristinsson Úr loðnuleiðangri í janúar 2022. Ljósm. Kristján H. Kristinsson

Dagana 19. janúar til 2. febrúar fóru fram árlegar vetrarmælingar loðnu með bergmálsaðferð á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Bjarna Sæmundssyni, á göngu loðnunnar austur eftir norðurmiðum og suður með kantinum austan lands. Í leiðangrinum náðust tvær óháðar mælingar á stofninum (Mynd 1).

Miklu munaði á mælingunum tveimur, hrygningarstofn loðnunar mældist 403 þús. tonn (CV=0.19) í fyrri yfirferðinni og 904 þús. tonn (CV=0.19) í þeirri síðari. Vegna þess að sú fyrri tafðist vegna óhagstæðra veðurskilyrða, var gisnari og líklegt er að loðna hafi gengið inn á svæðið á milli yfirferða, er litið svo á að sú fyrri gefi ekki rétta mynd af hrygningarstofninum og verður ekki tekið tillit til niðurstaðna hennar.

Hrygningarstofn loðnu er því metinn 904 þús. tonn. Þegar tekið er tillit til afla fram að leiðangri (200 þús. tonn) verður stofnstærðin 1104 þús. tonn sem má bera saman við mælingu hrygningarstofns í haustleiðangri 2021 uppá 1833 þús. tonn, sem leiddi til að ráðlagt var að heildarafli yrði 904 þús. tonn.

Lokaráðgjöf skal í samræmi við aflareglu vera byggð á tiltækum stofnmælingum sem hafa fengið jafnt vægi hingað til. Þegar aflareglunni er beitt með 1833 og 1104 tonn sem upphafsstofn hermana skilaði það 800 þús. tonna ráðgjöf. Það væri um 100 þúsund tonna lækkun á ráðlögðu heildaraflamarki (TAC) á yfirstandandi vertíð.

Hafrannsóknastofnun lítur svo á að mikilvægt sé að gera grein fyrir þessum upplýsingum tafarlaust.

Hafís norðvestan við Ísland kom í veg fyrir dekkun á svæði í janúar sem loðna hefur mögulega verið að finna á. Þess vegna telur Hafrannsóknastofnun nauðsynlegt að kanna það svæði frekar áður en lokaráðgjöf verður gefin út. Ráðgert er því að gera út leiðangur á norðvesturmið sem gæti leitt til hækkunar á mati hrygningarstofnsins, og þar af leiðandi einnig til hækkunar aflamarks. Leiði leiðangurinn hinsvegar ekki til hækkunar á mati mun lokaráðgjöf væntanlega verða um 800 þús. tonn.

Fyrirhugaður leiðangur gæti hafist um 8. febrúar, háð veðri og hafísskilyrðum. Stefnt er að kynningu niðurstaðna og lokaráðgjöf um viku síðar.

yfirlitsmynd af loðnuleiðangri í janúar 2022

Mynd 1. Leiðarlínur (gráar) og þéttleiki loðnuendurvarps (súlur hornrétt á leiðarlínur; Árni Friðriksson rauðar og Bjarni Sæmundsson bláar) í fyrri yfirferð (ofar) og síðari yfirferð (neðar) 18. janúar – 1. febrúar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?