Lax- og silungsveiðin 2022 - Samantekt

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Skýrslan: Lax og silungaveiðin 2022 er komin út.

Á árinu 2022 var stangveiði samkvæmt skráningu á laxi í ám á Íslandi alls 43.184 laxar sem er um 4% yfir meðalveiðinni frá 1974-2021. Af veiddum löxum var 23.029 (53,3%) sleppt og var heildarfjöldi landaðra stangveiddra laxa (afli) 20.155 (46,7%).

Af stangveiddum löxum var 16.943 smálöxum sleppt og 18.505 landað eða samtals 35.448 laxar (82,1 %) og 6.086 stórlöxum sleppt og 1.650 landað eða samtals 7.736 (17,9%) laxar með tveggja ára sjávardvöl eða lengri (stórlaxar). Alls var þyngd landaðra laxa (afli) í stangveiði 51.607 kg.

Skýrsla með samantekt lax- og silungsveiði ársins 2022 er aðgengileg á vef Hafrannsóknastofnunar. Samantekt veiðinnar 2022 byggist á gagnaskilum frá veiðiréttarhöfum, forsvarsmönnum veiðifélaga eða annarra sem sáu um skráningu veiði.

Netaveiðar á laxi hafa minnkað mikið síðustu ár og voru skráðir veiddir laxar í net alls 2.448 og afli 6.863 kg. Veiðin í net árið 2022 var 2.126 löxum færri en árið 2021 og rúmlega 8.000 löxum minni en verið hefur að meðaltali á árunum 1974-2021. Afli á villtum löxum hefur farið minnkandi á undanförnum árum bæði í stangveiði og netaveiði. Er þar bæði um að ræða aukinn fjölda sem sleppt er úr stangveiði og minnkandi sókn í netaveiði.

Í stangveiði voru skráðir alls 53.005 urriðar sumarið 2022 og þar af voru 45,5% þeirra sleppt. Veiddar bleikjur voru alls 26.348, og sleppt 19,0%, en árið 2021 voru veiddar 30.726 bleikjur og sleppt 45,2%. Afli bleikju var 21.343 fiskar (81,0%) sem vógu samtals 15.268 kg. Árið 2022 veiddust 5 hnúðlaxar (bleiklaxar) hér á landi sem skráðir voru í veiðiskýrslur en árið 2021 voru skráðir 339 hnúðlaxar.

Hæstu veiðisvæðin

Yfir allt landið þá voru 10 efstu laxveiðiárnar, Ytri-Rangá og Vesturbakki Hólsár með 5.112 laxa. Eystri-Rangá með 3.782 laxa, Miðfjarðará með 1.531 laxa, Þverá og Kjarrá með 1.414 laxa, Norðurá með 1.352 laxa, Hofsá með 1.211 laxa, Selá Vopnafirði með 1.164 laxa, Affall í Austur Landeyjum með 1.079 laxa, Laxá Kjós og Bugða með 1.056 og Langá 1.017 laxa.

Af fimm veiðihæstu urriðaveiðisvæðum landsins þar sem stangveiði var stunduð og skráð, voru veiddir flestir urriðar í Veiðivötnum, alls 12.123 urriðar. Í Þingvallavatni voru veiddir 4.896 urriðar. Í Laxá í Þingeyjasýslu ofan Brúa veiddust 4.423 urriðar, í Fremri Laxá á Ásum var urriðaveiðin 3.986, Vatnsdalsá og Giljá með 1.984 urriða. Auk þessara fimm voru sjö ár/vötn með yfir 1.000 skráða urriða, í öðrum ám og vötnum var skráð minni veiði.

Fimm hæstu veiðisvæði fyrir bleikju voru Veiðivötn með 7.191 bleikjur, Hólaá/Laugarvatn með 3.394 bleikjur, Hlíðarvatn í Selvogi með 2.007 bleikjur, vötn sunnan Tungnaár með 1.111 bleikjur, og Brúará og Hagaós með 966 bleikjur.

Sumarið 2022 bar ekki eins mikið á hnúðlöxum í ám hér á landi eins og 2021. Jafnan er meira af hnúðlaxi þegar ártalið stendur á oddatölu. Mikilvægt er að veiðimenn skrái veiði á hnúðlöxum, þar sem búast má við auknum fjölda hnúðlaxa sumarið 2023. Einnig er mikilvægt að veiðimenn skrái ef grunur leikur á að um eldislax sé að ræða og komi sýnum til greiningar.

Rafrænar skráningar í veiðibók

Frá og með veiðitímabilinu 2023 hefur sú breyting gerð að ætlast er til að veiði sé skráð rafrænt og skilað beint í gagnagrunn Hafrannsóknastofnunar. Rafræn skráning taki við af hinni hefðbundnu veiðibók sem verið hefur í notkun frá árinu 1946. Með því móti eiga veiðitölur að vera aðgengilegar jafnóðum yfir veiðitímann.

Hægt er að nálgast upplýsingar um rafræna veiðiskráningu á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. Þar er finna aðgang til skráningar í gegnum vafra en nokkrir möguleikar standa til boða varðandi tilhögun skráninga. Veiðiréttarhafar og umsjónarmenn veiðiskráningar eru hvattir til að kynna sér þá möguleika sem eru í boði.

Möguleikar til rafrænnar skráningar á lax- og silungsveiði eru einnig í boði hjá fleiri aðilum með smáforritum, t.d. AnglingIQ en þeim gögnum ber einnig að skila í gagnagrunn Hafrannsóknastofnunar.

Skýrslan: Lax og silungaveiðin 2022


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?