Langtímaleitni og bjögun í tengslum við rannsóknir á vernd líffræðilegrar fjölbreytni

Í greininni er sýnt fram mikla og langvarandi bjögun rannsókna á tegundum og vistkerfum þegar sjónum… Í greininni er sýnt fram mikla og langvarandi bjögun rannsókna á tegundum og vistkerfum þegar sjónum er beint að athygli rannsóknarsamfélagsinns í samanburði við tegundir og heimkynni þeirra sem eru skráðar í hættu á rauðum lista.

Langtímaleitni og bjögun í tengslum við rannsóknir á vernd líffræðilegrar fjölbreytni

Nýlega var birt greinin Langtímaleitni og bjögun í tengslum við rannsóknir á vernd líffræðilegrar fjölbreytni (e. Global trends and biases in biodiversity conservation research) í vísindaritinu Cell Reports Sustainability (sjá hér). Í greininni birtist tölfræðileg samantekt greina um verndarlíffræði, sem gefnar hafa verið út í fjórum alþjóðlegum verndarlíffræðiritum á tímabilinu 1968 til 2020. Áki Jarl Láruson, stofnerfðafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun var meðal vísindamanna sem tók þátt í samantektinni ásamt vísindafólki frá Ástralíu, Bandaríkjunum, Hollandi og víðar.

Í greininni er sýnt fram mikla og langvarandi bjögun rannsókna á tegundum og vistkerfum þegar sjónum er beint að athygli rannsóknarsamfélagsinns í samanburði við tegundir og heimkynni þeirra sem eru skráðar í hættu á rauðum lista Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna yfir tegundir í útrýmingarhættu.

Ein niðurstaða greinarinnar er sú að ferskvatnsvistkerfi hafa verið og eru enn meðal þeirra allra minnst rannsökuðu miðað við hversu margar tegundir í þeim eru taldar vera í hættu. Lagt er til að styrkveiting til þeirra rannsókna sem einblínir á kerfi sem hafa lítið verið rannsökuð (þ.e. fyrstu skrefs kannanir á kerfum sem hafa nær engar vísindalegar upplýsingar sér að baki) gæti rétt af þá bjögun sem virðist vera rótgróin í verndunarlíffræði.

Mikilvægt er að hafa í huga að það eru margar áskoranir á þeirri vegferð að fylgja eftir samningi um verndun líffræðilegrar fjölbreytni (e. Convention on Biological Diversity, CBD) og markmiðum sem Ísland samþykkti á COP15 ráðstefnunni í Canada 2022. Í greininni er bent á að áhugi almennings á tegundum er gjarna bundin við rannsóknir tiltekinna tegunda og vistkerfa.

Nýlega rituðu Náttúruminjasafn Íslands og Hafrannsóknarstofnun undir samstarfssamning til þess að styrkja miðlun og fræðslu almennings um annsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika og mikilvægi þeirra fyrir haf- og ferskvatnsvistkerfi. Greinin dregur fram hversu mikilvæg slík skref eru til þess að vísindarannsóknir feli í sér áhrif á verndun þeirra tegunda og vistkerfa sem um er fjallað.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?