Íslenska kvótakerfið hindrar ofveiði en sveigjanleiki þess getur skapað óheppilega hvata

Þorskur. Mynd Svanhildur Egilsdóttir. Þorskur. Mynd Svanhildur Egilsdóttir.

Íslenska kvótakerfið er eitt af því sveigjanlegasta og ítarlegasta í heiminum og jafnframt það kerfi þar sem hæsta hlutfall aflaheimilda næst í blönduðum veiðum.

Útgerðir geta ákveðið samsetningu veiðiheimilda á skipum sínum en hafa takmarkaða stjórn á því hvaða tegundir fást í veiðarfærin. Útgerðir bregðast við þessu með sölu eða leigu aflaheimilda sem og tilfærslum heimilda til þess að fullnýta kvóta og til þess að forðast brottkast. Þegar afli fer yfir aflaheimildir viðkomandi skips í einhverri tegund er hægt að bregðast við því með því að flytja heimildir milli fiskveiðiára eða nýta veiðiheimildir í öðrum tegundum með svo kallaðri tegundatilfærslu. Báðir þessir möguleikar eru þó háðir fremur þröngum skilyrðum.

Tegundatilfærsla gerist sjálfvirkt þegar afli er skráður í kerfi Fiskistofu. Breyting úr einni tegund í aðra gerist samkvæmt þorskígildum sem eru föst fyrir hvert fiskveiðiár og fylgja því ekki verðsveiflum innan fiskveiðiársins. Þetta getur leitt til hvata til að veiða meira af ákveðnum tegundum en öðrum. Ein birtingarmynd þess gæti verið veiði umfram ráðgjöf sem gæti leitt til ofveiði og hruns stofns.

Nýverið birtist vísindagrein í Proceedings of the National Academy of the Sciences sem fjallar um tilfærslur í botnfiskveiðum á Íslandi. Rannsóknin var samvinnuverkefni Háskóla Íslands, Hafrannsóknastofnunar, Háskólans í Stokkhólmi og Háskólans í Zurich.

Pamela Woods sérfræðingur á Botnsjávarsviði Hafrannsóknastofnunar var ein af höfundum greinarinnar. Niðurstaða greinarinnar er að almennt bendi margt til að notkun á tegundatilfærslu sé gerð meira af hagnaðarsjónarmiðum, fremur en til að ná utan um óvænta veiði af tegundum sem ekki var sóst eftir. Rannsóknin sýnir að þrátt fyrir vissa hættu á ofveiði vegna eiginleika kerfisins þá hefur kerfið í raun ekki leitt til ofveiði tegunda þó að afli hafi oft farið yfir sett aflamark stjórnvalda, t.d. afli þykkvalúru. Höfundar greinarinnar tengja þetta sérstakri stöðu þorsks í kvótakerfinu en þorskur er bæði verðmætur og einnig algengur á Íslandsmiðum. Hinsvegar nýtur þorskur sérstakrar verndar í kvótakerfinu þar sem ekki er hægt að breyta öðrum tegundum í þorsk.

Í greininni benda höfundarnir á nokkrar breytingar á tilfærslureglunum sem gætu dregið úr líkum á mögulegri ofveiði sem tegundatilfærsla gæti valdið í núverandi kerfi. Breytingarnar eru í fyrsta lagi að færsla aflamarks milli fiskveiðiára sé nýtt til fulls áður en til tegundatilfærslu kemur (er öfugt í núverandi kerfi) og í öðru lagi að sett séu mörk á hversu mikið er hægt að „búa til“ heimildir í einstökum tegundum.

Höfundar greinarinnar telja marga eiginleika íslenska kerfisins ákjósanlega og mætti taka upp í öðrum kvótakerfum. Kvótakerfi með framseljanlegum aflaheimildum þar sem brottkast er bannað fer fjölgandi á heimsvísu. Slík kerfi geta leitt til þess að stór hluti aflaheimilda er ekki nýttur til fulls ef útgerðir hafa ekki sveigjanleika til að láta aflaheimildir mæta afla úr sjó. Rannsóknin sýnir jafnframt að kerfið þarf að vera vel aðlagað að vistkerfi viðkomandi lands sem og hagræns umhverfis landsins. Ef ekki er hryggjarstykki í kvótakerfi, líkt og þorskur í því íslenska, geta slík kerfi leitt til ofveiði þó svo að tilgangur þeirra sé hið gagnstæða.

Á eftirfarandi hlekk má lesa greinina: https://www.pnas.org/content/117/40/24771


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?