Vísitala norsk-íslenskrar síldar lækkar um 8%

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson.
Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Rannsóknarskipið Árni Friðriksson.
Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Skýrsla um niðurstöður alþjóðlegs leiðangurs, frá maí síðastliðnum í Noregshafi og aðliggjandi hafsvæðum, liggur nú fyrir.

Markmið leiðangursins

Eitt af meginmarkmiðum leiðangursins er að meta magn og útbreiðslu norsk-íslenskrar síldar og annara uppsjávartegunda. Því til viðbótar er ástand hafsins og vistkerfisins kannað, m.a. hitastig og magn átustofna. 

Leiðangurinn er skipulagður innan vinnuhóps Alþjóða Hafrannsóknaráðsins (ICES). Þátttakendur í leiðangrinum auk rannsóknarskipsins Árna Friðrikssonar, voru rannsóknarskip frá Noregi, Færeyjum, Danmörku og Bretlandi. Hér að neðan eru helstu niðurstöður tíundaðar.

Norsk-íslenska síldin

Norsk-íslenska síld var aðallega að finna í vestanverðu hafinu og var 2016 árgangurinn (7 ára) allsráðandi þar (mynd 1). Heildarbergmálsvísitala fullorðinnar síldar var 4,1 milljón tonn í samanburði við 4,4 milljón tonn árið 2022 sem er lækkun um 0,3 milljón tonn (8%). Vísitölur síðustu ára hafa sveiflast lítillega en heilt yfir sýna þær nokkuð stöðuga en minnkandi stofnstærð (mynd 2). Árgangurinn frá 2016 var í mestum fjölda og lífmassa (bæði rúm 57%). Árgangar eftir 2016 eru litlir.

Á þessum árstíma er síldin í fæðugöngu í vesturátt frá hrygningarsvæðum við Noreg. Miðað við þessa dreifingu má ætla að síldin muni halda sig austur og norður af Íslandi í sumar, líkt og undanfarin ár.

Mynd 1. Útbreiðsla og þéttleiki norsk-íslenskrar síldar í maí 2023 samkvæmt bergmálsgildum. Leiðarlínur eru sýndar í bakgrunni.

Mynd 2. Vísitölur um lífmassa norsk-íslenskrar síldar í maí leiðöngrum frá 1995-2023. Fyrir árin 2008-2023 eru einnig sýnd 90% öryggismörk.

Kolmunni

Kolmunna var að finna utan landgrunns á mest öllu athugunarsvæðinu ef undan er skilið svæðið þar sem áhrifa kalda Austur-Íslands straumsins austur af Íslandi gætir. Mesti þéttleikinn var á suðurhluta athugunarsvæðisins svo og með landgrunnsbrún Noregs. Þessi leiðangur nær ekki yfir dreifingu alls kolmunnastofnsins. Mest mældist af 1-3 ára kolmunna (91%) sem er afleiðing af góðri nýliðun síðustu ára og sterkra árganga að koma í veiðistofninn.

Magn átustofna

Litlar breytingar eru á vísitölum um þéttleika átu fyrir allt rannsóknarsvæðið frá fyrra ári að undanskyldu svæðinu austur af Íslandi þar sem var töluverð hækkun (mynd 3).

Mynd 3. Vístölur um magn átu (þurrvigt mg m-2) í maí 1995-2023 eftir mismunandi hafsvæðum í Noregshafi og aðliggjandi hafsvæðum sem dekkuð eru í leiðangrinum, m.a. austur af Íslandi (efst til vinstri).

Hitastig sjávar

Hitastig sjávar var svipað og verið hefur undanfarin ár, eða rétt undir langtímameðaltali áranna 1995-2021 á 50-200 m dýpi á vestari hluta hafsvæðisins en yfir meðaltali í hlýrri sjónum austar og sunnar (mynd 4). Á 200-500 m dýpi var hitinn ýmist undir og yfir meðaltali.

Mynd 4. Hitastig sjávar (til vinstri) og frávik í hitastigi frá meðaltali áranna 1995-2021 (til hægri) á 50-200 m dýpi í maí 2023.

Niðurstöðurnar

Þessar niðurstöður, og þá einkum síldarmælinganna, verða meðal annars notaðar á fundi ICES í lok ágúst næstkomandi þar sem vinna við stofnstærðarmat og ráðgjöf uppsjávarfiskistofna fer fram.

Skýrslan: International Ecosystem Survey In Nordic Sea (IESNS) in April - May 2023 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?