Hitastig sjávar ákveður útbreiðslu hrognkelsis

Hitastig sjávar ákveður útbreiðslu hrognkelsis

Hrognkelsi hrygnir við strendur Íslands og annarra Norðurlanda og ungviði þeirra halda til hafs eftir því sem það vex, en hvert fara þau? Í nýrri vísindagrein frá vísindamönnum á Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Danmörku og Noregi, er útbreiðsla hrognkelsa rannsökuð út frá gögnum frá alþjóðlega vistkerfisleiðangrinum í Norðurhöfum að sumarlagi (einnig þekktur sem makrílleiðangur). Hrognkelsi var með mikla útbreiðslu á nær öllu yfirferðasvæðinu sem spannar Grænlandshaf (e. Irminger Sea), Grænlandssund (e. Denmark Strait), Íslandshaf, Noregshaf, Íslandsdjúp og Norðursjó (Mynd 1). Magn þeirra í stöðluðum yfirborðstogum var jafnan lítið, og þar með þéttleikinn og var hann sýnum lægstur sunnan við Ísland og í Norðursjó samanborið við önnur strand- og hafsvæði.



Mynd 1. Kort af Norðurhöfum með helstu hlýjum (rauðum) og köldum (grænum) yfirborðsstraumum (a) og staðsetningu og þéttleika hrognkelsis sem veiddist í alþjóðlega vistkerfisleiðangrinum í Norðurhöfum að sumarlagi árið 2020 (árið með mestu umfangi) (b). Hitastig á 20 m dýpi árið 2020 er sýnt á báðum gröfunum með gulum til rauðs lits.

Lengdardreifing hrognkelsa sem veiddust gaf tilefni til að skipta þeim í tvo lengdarflokka (Mynd 2). Minni en 18 sm voru skilgreind sem ungviði og stærri en 18 sm sem fullorðin og útbreiðsla beggja var skoðuð sérstaklega.

 



Mynd 2. Lengdardreifing hrognkelsa sem veiddust í alþjóðlega vistkerfisleiðangrinum í Norðurhöfum að sumarlagi á árunum 2010 til 2023.
Útbreiðsla ungviðis og fullorðinna hrognkelsa var mismunandi þar sem fullorðin voru dreifð yfir stærra svæði en ungviðið (Mynd 3). Mesti þéttleiki ungviðis var í mið og norðurhluta Noregshafs en einnig á svæðum norðan og vestan við Ísland. Fullorðið hrognkelsi voru á nánast öllu rannsóknarsvæðinu en með mesta þéttleikann í norðaustur- og norðvesturhluta Noregshafs og út af norður- og austurhluta Íslands.



Mynd 3. Meðalþéttleiki ungviðis (< 18 sm) (a) og fullorðinna (≥ 18 sm) (b) hrognkelsa í reitum (1 × 1°) í alþjóðlega vistkerfisleiðangrinum í Norðurhöfum að sumarlagi á árunum 2010 til 2023. Rauður litur gefur til kynna að svæðið hafi verið kannað en fullorðin eða ungviði veiddust ekki.

Rannsökuð voru tengsl nokkra umhverfisþátta og dreifingu ungviðis og fullorðinna hrognkelsa. Þótt ungviðið veiddist oftast við hitastig á bilinu 6-10°C, var dreifing þeirra líklegast ákvörðuð af klakstað og hafstraumum, og engin tengsl voru milli útbreiðslu þeirra og magn plöntu- eða dýrasvifs. Hins vegar var hitastig mikilvægasti þátturinn sem ákvarðaði dreifingu fullorðinna fiska, en mestar líkur voru á að þeir fyndust við hitastig á bilinu 4-8°C. Líkt og með ungviðið voru ekki tengsl milli þéttleika fullorðinna hrognkelsa og magn plöntu- eða dýrasvifs. Tilvist bæði ungviðis og fullorðinna hrognkelsa minnkaði verulega þar sem hitastig sjávar var yfir 12°C sem skýrir fjarveru þeirra sunnan við Ísland og í stórum hluta Norðursjávar.

Greinin í heild er að finna hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?