Dælusýnataki reynist vel við sýnatöku með köfun

Dælusýnataki reynist vel við sýnatöku með köfun

Í nýjasta hefti tímaritsins Aquatic Biology er birt grein eftir þau Jóhann Garðar Þorbjörnsson og Jónínu Herdísi Ólafsdóttur, líffræðinga hjá Hafrannsóknastofnun í Ólafsvík og Bjarna Kristófer Kristjánsson, prófessor við Háskólann á Hólum. Í greininni voru tvær aðferðir bornar saman fyrir sýnatöku með köfun á hörðum botni í vatnavistkerfi. Annars vegar var notaður umbreyttur Surber sýnataki og hinsvegar dæluýnataki sem var sérstaklega þróaður fyrir notkun með köfun. Dælusýnatakinn byggir á því að nota handvirka bátapumpu til þess að soga upp lífverur og efni sem fast er á botni. Aðferðirnar voru bornar saman í grunnvatnsgjánni Silfru á Þingvöllum þar sem sýni voru tekin á lóðréttum veggjum og botni. Samanburðurinn fólst í því að bera saman skilvirkni aðferðanna beggja sem og þéttleika og tegundafjölda ferskvatnshryggleysingja sem safnað var með hvorri aðferð. Dælusýnatakinn reyndist tvöfalt skilvirkari og innihéldu sýni sem tekin voru með honum marktækt meiri þéttleika sem og fleiri tegundir en sýni sem tekin voru með Surber sýnatakanum. 

Dælusýnatakinn er hentugur á óaðgengilegum svæðum þar sem aðgengi fyrir stærri og flóknari sýnatökutæki er erfitt. Sýnatakinn er settur saman á einfaldan hátt með ódýrum efnum og honum má breyta eftir þörfum. Með notkun Dælusýnatakans getur rannsóknarfólk framkvæmt nákvæma sýnatöku á botnlífríki, t.d. smáum hryggleysingjum, þörungum og seti í sjávar- og vatnavistkerfum, sérstaklega á þeim svæðum þar sem sýnataka hefur áður reynst erfið.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?