Jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun þessi tekur til allrar starfsemi Hafannsóknastofnunar sbr. 18.gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga). Áætlunin kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Hafrannsóknastofnunar þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum.

Markmið

Markmiðið með jafnréttisáætlun Hafrannsóknastofnunar er að jafn réttur kynjanna ríki innan stofnunarinnar, jöfn staða og virðing. Stjórnendur og starfsfólk Hafrannsóknastofnunar sé meðvitað um mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni. Lögð er áhersla á góða líðan starfsmanna á vinnustað þar sem samræming fjölskyldulífs og atvinnu er í heiðri höfð og að hver starfsmaður verði metinn á eigin forsendum og geti notið sín í starfi. Þannig verði tryggt að mannauður Hafrannsóknastofnunar nýtist sem best. Jafnréttisáætlun þessi tekur til allra starfa á stofnuninni.


Framkvæmd ákvæða jafnréttisáætlunar þessarar er á ábyrgð framkvæmdastjórnar Hafrannsóknastofnunar.

Tölfræðiupplýsingar

Markmið

Að tölfræðiupplýsingar séu greindar eftir kyni ásamt úttekt á stöðu kynja á Hafrannsóknastofnun og að upplýsingar um kynjaskiptingu séu ávallt tiltækar og birtar í ársskýrslu.

Aðgerðir

Greina skal á milli kynja við meðhöndlun, úrvinnslu og mat á upplýsingum, nema sérstakar ástæður; svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því sbr. 16.gr jafnréttislaga. Taka skal saman árlegt yfirlit um launakjör og kynjaskiptingu starfsmanna, yfirlit um styrkþega, þátttakendur á námskeiðum svo og kynjaskiptingu umsækjenda um störf, styrki og námskeið. Birta þessar upplýsingar í ársskýrslu stofnunarinnar.

Ábyrgð

Jafnréttisfulltrúar, mannauðsstjóri

Launajafnrétti

Markmið

Að uppræta kynjabundinn launamun á Hafrannsóknastofnun, að konum og körlum séu greidd sömu laun fyrir sambærileg störf og bæði kyn njóti sömu kjara, sbr. 19. gr. laga nr. 10/2008. Árlega skal tekið saman yfirlit um launakjör starfsmanna. Gildir þetta einnig um aðrar greiðslur en grunnlaun, s.s., greiðslur fyrir yfirvinnu, aukaþóknanir og önnur hlunnindi.

Aðgerðir

Þegar gerð er úttekt á hvort til staðar sé kynbundinn launamunur og svo reynist vera, skal framkvæmdastjórn ákveða hvernig hún hyggst jafna hlut kynjanna. Ef starfsmaður telur að launamismunur sé til staðar vegna kynferðis, þarf framkvæmdastjórn að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar launaákvörðun. Við ákvarðanir um launafyrirkomulag skal ávallt gæta samræmis milli kynja. Niðurstöður skulu kynntar starfsfólki á starfsmannafundi árlega í lok árs.

Ábyrgð

Framkvæmdastjórn - jafnréttisfulltrúar

Líðan starfsmanna

Markmið

Áhersla er lögð á góða líðan og góðan starfsanda á Hafrannsóknastofnun skv. ákvæði við 22.gr jafnréttislaga. Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki einelti, kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi. Starfsmenn skulu koma fram af hreinskilni hver við annan og koma skilaboðum um ágalla og þörf á úrbótum á framfæri við rétta aðila. Vinnuaðstæður allar skulu taka mið af þörfum beggja kynja. Fræðsla um kynbundna og kynferðislega áreitni og meðferð slíkra mála verði þáttur í fræðslu sem jafnréttisfulltrúar skipuleggja árlega í samráði við framkvæmdastjórn.

Aðgerðir

Verði starfsmaður fyrir einhvers konar misrétti getur hann leitað til mannauðsstjóra sem ber að leiðbeina honum í slíkum málum og veita nauðsynlega aðstoð. Starfsmenn skulu hvattir til að leita til yfirmanna sinna með hvaðeina sem veldur þeim vanlíðan á vinnustað og skulu yfirmenn þá leitast við að bæta úr því, eftir því sem við verður komið. Ef fram kemur kvörtun eða grunur um kynferðislega áreitni á vinnustað skal yfirmaður bregðast við eins fljótt og hægt er og leitast við að leysa málin innan stofnunarinnar með aðkomu trúnaðarmanna og mannauðsstjóra. Framkvæmdastjórn sér til þess að haldin skulu námskeið sem til þess eru bær að taka á móti kvörtunum starfsfólks vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni. Á Hafrannsóknastofnun skal liggja fyrir aðgerðaáætlun sem kveður á um hvernig bregðast skuli við ef upp koma mál sem varða einelti eða kynferðislegt ofbeldi. Ef starfsmaður telur sig ekki fá viðunandi úrlausn mála skal honum bent á þann möguleika að hafa samband við Vinnueftirlit ríkisins.

Aðgerðaráætlun

  1. Tilkynningaskylda starfsmanns
    Starfsmaður sem hefur orðið fyrir eða hefur vitneskju um einelti, ofbeldi eða kynferðislega áreitni á vinnustað skal upplýsa forstjóra eða fulltrúa í öryggisnefnd (öryggistrúnaðarmann) stofnunarinnar sem kemur því á framfæri til forstjóra. Skal starfsmaðurinn vera reiðubúinn að skýra mál sitt nánar ef ástæða þykir til.
  2. Viðbrögð forstjóra
    Forstjóri skal bregðast við eins fljótt og kostur er komi fram ábending eða kvörtun um einelti, ofbeldi eða kynferðislega áreitni á vinnustað. Hið sama gildir þegar rökstuddur grunur er um einelti eða önnur ótilhlýðileg háttsemi í garð starfsmanna eða stjórnenda eigi sér stað innan vinnustaðarins. Meta skal aðstæður í samvinnu við öryggistrúnaðarmann, utanaðkomandi ráðgjafa, ef með þarf, og aðra er málið varðar. Forstjóri skal taka á árekstrum og vandamálum sem upp kunna að koma og leiða þau til lykta í sátt við þá sem eiga hlut að máli. Hann skal fylgja því eftir að einelti, ofbeldi eða kynferðisleg áreitni endurtaki sig ekki.

    Stefna og viðbragðsáætlun gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi er að auki birt á innri vef og aðgengileg starfsfólki Hafrannsóknastofnunar.

Ábyrgð

Framkvæmdastjórn.

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Markmið

Að öllum starfsmönnum skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu. Yfirvinnu starfsfólks skal halda innan hóflegra marka og uppræta kynbundinn mun þar á.

Aðgerðir

Foreldrum ungra barna skal kynnt sú afstaða Hafrannsóknastofnunar að gengið sé út frá því að þeir taki það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á og að jafnt mæður sem feður séu heima hjá veikum börnum. Upplýsa skal karla og konur um lögvarinn rétt þeirra til fæðingar- og foreldraorlofs. Ef hægt er að koma því við skal bjóða starfsfólki hlutastörf, sveigjanlegan vinnutíma eða aðra hagræðingu. Möguleikar á hlutastörfum skulu standa konum og körlum jafnt til boða. Fara skal árlega yfir fjölda yfirvinnustunda og gera kyngreint yfirlit yfir þær og kynna starfsmönnum.

Ábyrgð

Framkvæmdastjórn.

Samþætting jafnréttissjónarmiða

Markmið

Að flétta sjónarhorn jafnréttis inn í stefnumótun Hafrannsóknastofnunar, eftir því sem við á. Þannig er æskilegt að allir sem koma að stefnumótun og ákvarðanatöku hafi lágmarks þekkingu á jafnréttismálum. Til lengri tíma litið er markmiðið það að sjónarhorn jafnréttis verði sjálfsagt í allri ákvarðanatöku.

Aðgerðir

Yfirmenn skulu sækja fræðslu um jafnréttismál. Markviss fræðsla til stjórnenda og starfsmanna Hafrannsóknastofnunar um jafnréttismál sem og fræðsla um samræmingu starfs og fjölskylduábyrgðar sem verði virkur þáttur í starfi stofnunarinnar. Því jafnari sem hlutföll karla og kvenna eru þar sem verið er að móta nýja stefnu, því meiri líkur eru á því að ákvarðanir sem teknar eru endurspegli hagsmuni beggja kynja.

Ábyrgð

Framkvæmdastjórn

Starfsþjálfun og endurmenntun

Markmið

Að bæði kynin njóti sömu tækifæra til endurmenntunar og starfsþjálfunar sem leiða til aukinnar hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

Aðgerðir

Öllum starfsmönnum skal gefinn kostur á að sækja fræðslu, námskeið, ráðstefnur o.þ.h. til að auka hæfni sína í starfi. Haldið skal utan um þá fræðslu sem starfsmenn sækja svo yfirsýn sé fyrir hendi.

Ábyrgð

Framkvæmdastjórn – jafnréttisfulltrúar - mannauðsstjóri

Auglýsingar og starfsráðningar

Markmið

Að í auglýsingum um laus störf á Hafrannsóknastofnun sé höfðað jafnt til kvenna og karla og að í þeim sé gætt jafnræðis og jafnrar virðingar kynjanna. Við ráðningar í störf sé kynjahlutfall innan stofnunarinnar ævinlega haft í huga.

Aðgerðir

Auglýsingar á vegum Hafrannsóknastofnunar skulu að jafnaði vera kynhlutlausar. Í starfsauglýsingum skal höfða bæði til kvenna og karla og gæta skal þess að hafa bæði kynin í huga við gerð þeirra. Við ráðningar í störf á Hafrannsóknastofnun skal þess gætt að sá umsækjandi sem metinn er hæfastur til þess að gegna starfi sé ráðinn, án tillits til kynferðis. Séu karl og kona talin jafnhæf til starfs skal að jafnaði ráða það kynið sem á hallar. Við úthlutun verkefna, þegar tilfærsla verður í störfum og þegar tækifæri skapast til frekari ábyrgðar og til framgangs í störfum innan Hafrannsóknastofnunar, skal þess gætt að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis.

Ábyrgð

Framkvæmdastjórn og mannauðsstjóri

Jafnréttisfulltrúi

Markmið

Markmiðið með skipun jafnréttisfulltrúa er að Hafrannsóknastofnun  hafi á að skipa tveimur fulltrúum af báðum kynjum sem fjalla um og hafa eftirlit með að jafnrétti sé virt á stofnuninni. Jafnréttisfulltrúar hafi einnig eftirlit með jafnréttisáætlun þessari.

Aðgerðir

Jafnréttisfulltrúar skulu taka saman árlegt yfirlit um stöðu jafnréttismála innan Hafrannsóknastofnunar. Yfirlitið skal kynnt stjórnendum og síðan starfsmönnum stofnunarinnar. Þeir skulu einnig senda jafnréttisfulltrúa atvinnu-og nýsköpunarráðuneytis árlega greinargerð um jafnréttisstarf stofnunarinnar, sbr. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þeir skulu sækja og veita sérfræðiráðgjöf er varðar jafnréttis- og kynjasjónarmið og sækja aukna þekkingu, m.a. með þátttöku í verkefnum, ráðstefnum og námskeiðum. Jafnréttisfulltrúar fjalla um og hafa eftirlit með stöðu jafnréttismála innan Hafrannsóknastofnunar í samráði/samstarfi við trúnaðarmenn. Jafnréttisfulltrúar skulu taka þátt í samstarfi jafnréttisfulltrúa annarra stofnana atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og sækja samstarfsfundi þeirra.

Ábyrgð

Framkvæmdastjórn

Kynning og endurskoðun

Jafnréttisáætlun Hafrannsóknastofnunar er sett skv. 2. mgr. 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Hún skal endurskoðuð á þriggja ára fresti. Jafnréttisáætlunin skal kynnt nýjum starfsmönnum við ráðningu.

Ábyrgð

Mannauðsstjóri - jafnréttisfulltrúar


Hafrannsóknastofnun, 9. mars 2017

Sigurður Guðjónsson, (sign)   
Kristín Helgadóttir, (sign)     
Sólmundur Már Jónsson, (sign)                                                                                 

Tilvísanir
ISO 9001 - 4.01 Ábyrgð stjórnenda

Ritstjórn
Haraldur Einarsson
Anna Ragnheiður Grétarsdóttir

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?