Uggi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Scopelosaurus lepidus
Danska: Øglesmelt
Færeyska: Mjáikjaftur
Enska: Blackfin waryfish
Rússneska: Скопелозавр / Skopelozávr

Uggi er langvaxinn, grannvaxinn og rennilegur fiskur. Hann er sívalur á bol en þunnvaxinn á stirtlu. Haus er í meðallagi stór, frammjór og trjóna bogadregin. Augu eru stór, egglaga og á miðjum haus en nasir eru smáar og þéttstæðar. Skoltar ná a.m.k. aftur á móts við mið augu. Á hvoru miðskoltsbeini er einföld röð smárra tanna og á neðri skolti eru þrjár eða fjórar raðir af smáum og beittum tönnum. Smáar, hvassar tennur eru á plógbeini og gómbeinum. Tunga er tannlaus. Gelgjubörð eru ekki samvaxin lífoddanum. Bakuggi er stuttur, nokkuð hár og er um miðjan fisk. Góðan spöl aftan hans og nær sporði er lítill veiðiuggi andspænis aftari hluta raufarugga. Sporður er djúpsýldur. Eyruggar eru mjög langir, ná aftur að eða aftur fyrir fremri rætur bakugga. Kviðuggar eru framan við bakugga.

Rauf er rétt aftan við kviðuggarætur. Hreistur er stórt, slétt og laust og þekur bol og stirtlu en haus er hreisturlaus nema kinn og e.t.v. tálknalok. Fiskurinn hefur engin ljósfæri. Uggi getur orðið 40 cm langur.

Litur er svartbrúnn.

Geislar: B: 9-14; R: 16-2; hryggjarliðir: 59-61.

Heimkynni ugga eru í Norður-Atlantshafi. Í því norðaustanverðu hefur hann m.a. fundist á Gaussbanka (65°N, 35°V) við

Austur-Grænland þar sem sá fyrsti kom fyrir augu vísindamanna í janúarárið 1955. Hann var 13 cm langur. Síðan hefur uggi veiðst á Íslandsmiðum og allt suður til 20°N undan ströndum Afríku.

I norð-vestanverðu Atlantshafi er hann við Vestur-Grænland, Labrador og á Stórabanka við Nýfundnaland.

Hér hefur hann m.a. veiðst suður af Selvogsbanka, á grálúðuslóð vestan Víkuráls og 

utan 200 sjómílnanna suðvestur af Reykjanesi.

Lífshættir: Uggi er miðsævis- og botnfiskur sem veiðst hefur einkum á 200—1400 m dýpi. Seiði og ungfiskar veiðast stundum miðsævis á 70-200 m dýpi í úthafinu.

Fæða er einkum krabbaflær en einnig ljósáta og smáfiskar. Sjálfur verður uggi þorski, blálöngu, karfa og fleiri fiskum að bráð.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?