Tindaskata

Samheiti á íslensku:
tindabikkja
Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Amblyraja radiata
Danska: ritte, tærbe
Færeyska: tindaskota
Norska: kloskate
Sænska: klorocka
Enska: starry ray, thorny skate
Þýska: Sternrochen
Franska: raie radiée
Spænska: raya radiada
Portúgalska: raia-repregada
Rússneska: Звёздчатый скат / Zvjózdtsjatyj skat

Tindaskata er trjónustutt og er trjónan snubbótt fyrir endann. Kjafturinn er lítill. Börðin eru breið en hali fremur stuttur. Bakuggar eru oftast aðskildir og kviðuggarnir alllangir. Lítillega vottar fyrir sporðblöðku. Tindaskatan er alveg slétt að neðan en að ofan er hún hrufótt af smáum og stórum göddum og tindum sem hafa geislagáróttan fót og afturbeygðan hvassan odd. Eftir miðju baki og hala eru röð af 12-19 stórum tindum. Einnig eru tindar framan og aftan við augu og utan til á baki en engir á milli bakugga.

Tindaskata getur orðið 100 cm eða lengri en verður þó sjaldan lengri en 70 cm.

Litur tindaskötunnar er mógrár með ljósum eða dökkum blettum að ofan en ljós að neðan.

Lífshættir: Tindaskata er botnfiskur sem lifir á 20-1000 m dýpi og jafnvel dýpra. Hún mun hafa veiðst dýpst á 1480-1540 m dýpi djúpt norðvestur af Noregi (73°43´N, 13°37’V) í maí 1989 og var botnhiti – 0,9°C. Algengust er hún á 30-2200 m dýpi á leir eða sandbotni. Hún heldur út á djúpið á veturna en gengur á grunnmið á vorin og sumrin. Kjörhiti hennar er 1-10°C° en hún finnst allt niður í – 1,7 °C.

Fæða er einkum fiskar, meðal annars þorskfiskar, marsíli, loðna og fleira en ýmiss konar botndýr eins og krabbadýr (rækja, marflær, ljósáta) og burstaormar,

Ekki er vitað mikið um got tindaskötu hér við land en talið er að hún gjóti allt árið um kring með hámarki á sumrin (júní- ágúst). Eggjahylkin eru 3,4-8,9 cm löng (að þráðunum frátöldum) og 2,5-6,8 cm breið og með löngum þráðum. Hafa þau fundist víða í kringum landið og oft í allmiklu magni, meðal annars í Faxaflóa en þar og á Vestfjarðamiðum hefur orðið vart við gjótandi tindaskötu í marsmánuði. Pétursskip tindaskötu sjást oft rekin á fjörur víða við landið. Tindaskata vex hægt. Hún verður a.m.k 20 ára gömul og kynþroska 45-50 cm löng.

Nytjar: Tindaskata veiðist sem aukaafli í dragnót, á línu og í botnvörpu, einkum suðvestan- og sunnanlands. Enda þótt hún teljist ágætis matfiskur, bæði soðin og steikt, er tindaskatan lítið nýtt. Þó hefur nýting aukist nokkuð á síðari árum vegan skorts á skötu (Dipturus batis), sem hefð er fyrir að nýta.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?