Þrömmungur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Triglops murrayi
Danska: Murrays knurulk
Færeyska: murrikrutt
Norska: nordlig knurrulke
Sænska: simpknot
Enska: mailed sculpin, moustace sculpin
Þýska: Murrays Groppe
Franska: chabot arctique, faux-trigle maillé
Rússneska: Triglóps atlantítsjeskij

Þrömmungur er lítill fiskur, sívalur og smámjókkar frá hnakka afur á spyrðustæði. Haus er frekar stór. Kjaftur er af meðalstærð, jafnskolta eða örlítið undirmynntur. Tennur eru smáar og í þéttum breiðum á skoltum og plógbeini. Agu eru stór og ná upp fyrir enni. Á vangabeini eru fjórir smáir gaddar. Bolur er stuttur en stirtla er um tvöfalt lengri og mjókkar mjög aftur að sporði. Bakuggar eru tveir og vel aðskildir. Sá fremri er styttri en hærri. Raufaruggi er jafn­langur aftari bakugga og andspænis honum. Sporðblaðka er stór og bogadregin fyrir end­ann. Eyruggar eru storir og ná aftur fyrir rauf. Kviðuggar eru langir. Á framanverðu baki er röð af tenntum beinplötum auk smárra bein­arða eftir endilangri rák. Niður frá rák eru ör­þunnar hreisturkenndar plötur í skáröðum. Kynjamunur er mikill, hrygnur eru stærri en hængar. Hængar eru með lim. Þrömmungur verður 20 cm. Sá stærsti á Íslandsmiðum mældist 19 cm.

Litur er breytilegur eftir aldri og kyni. Grunnlitur er gulleitur en á bol og stirtlu eru óreglulegir dökkir blettir. Aftast í fremri bakugga er dökkur blettur mjög einkennandi og á sporði og eyruggum eru oftast þrjár (sjaldan tvær eða fjórar) dökkar þverrendur. Lífhimna er ljós (silfruð).

Lífshættir: Þrömmungur er botnfiskur á 10-300 m dýpi og dýpra í 0-4°C sjó en er algengastur á 50-250 m og við 2-3°C . Í mars árið 1995 veiddist 19 cm þrömmungur á 330-345 m dýpi á Þórsbanka undan Suðausturlandi. Er það bæði stærsti þrömmungur hér við land og sá sem veiðst hefur á mesu dýpi.

Fæða er einkum burstaormar og smá krabbadýr.

Hrygning fer fram hér sennilega að vetri til eða snemma vors. Vart hefur orðið svifseiða við vestur-, norður- og austurströndina síðari hluta vors. Í Barentshafi hrygnir þrömmungur síðla hausts eða að vetri, 100-600 eggjum sem eru um 2 mm í þvermál. Við Kanada virðist þörmmungur hrygna sumar, haust og vetur eftir því hvar hann lifir.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?