Sandkoli

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Limanda limanda
Danska: ising, plæde, slette
Færeyska: sandsprøka
Norska: sandflyndre
Sænska: sandskädda
Enska: common dab, dab
Þýska: Kliesche, Scharbe
Franska: limande commune
Spænska: limanda
Portúgalska: limanda, solha-escura-do-Mar-do-Norte
Rússneska: Ершоватка / Jershovátka, Лиманда / Limánda

Sandkoli er hauslítill og með smáan kjaft sem nær aftur að hægra auga. Tennur eru hvassar og eru fleiri í skolti blindu hliðarinnar. Uggar eru venjulegir flatfiskaguggar. Bakuggi byrjar á móts við eða aftan við mitt vinstra auga. Sporðblaðka er frekar stór. Hreistur er mjög smátt og hrjúft á dökku hliðinni, svokallað kambhreistur, en slétt á ljósu hliðinni. Rák er greinileg og myndar sveig yfir eyruggum. Lengsti sandkoli sem veiðst hefur hér við land og um leið e.t.v. sá lengsti í heiminum var 49 cm og veiddist hann á Grindavíkurleir í apríl árið 1993. Í maí 1992 veiddist einn 48 cm austan við Vestmannaeyjar og annar jafnlangur í Garðsjó í desember 2002.

Litur er breytilegur eftir botni og umhverfi. Oft er sandkolinn dökkgrænleitur eða gráleitur, jafnvel allt að því svartur og með gulum smáblettum á dökku hliðinni sem upp snýr. Þessir blettir eru oft umkringdir svartri rönd. Vinstri hlið er ljós eða hvít.

Geislar: B; 62-83; R: 50-66; hryggjarliðir: 40-42.

Heimkynni sandkola eru í Hvítahafi og norðaustanverðu Atlantshafi meðfram strönd Noregs og inn í Skagerak og Kattegat og dönsku sundin inn í vestanvert Eystrasalt. Þá er hann mjög algengur í Norðursjónum og þaðan um Ermasund og inn í Biskajaflóa.

Hann er allt í kringum Bretlandseyjar, við Færeyjar og Ísland. Við Grænland og Norður- Ameríku er hann ekki.

Hér við land er sandkolinn á grunnsævi allt í kringum landið og víða mjög algengur.

Lífshættir: Sandkoli er botnfiskur á sand og leirbotni frá fjöruborði og niður á 150 m dýpi en hann er algengastur á 20-40 m. Talið var að hann flæktist lítið um í sjónum og aðeins af grynnra vatni á sumrin út á dýpra vatn á veturna og öfugt en merkingar hér við land hafa sýnt að hann á það til að flækjast víðar en álitið var, m.a. þvælast sandkolar út Faxaflóa og suður fyrir Reykjanes allt austur að Ingólfshöfða.

Fæða sandkolans er fyrst og fremst loðna, síli og alls konar skeldýr og þótt ótrúlegt sé með svona lítinn fisk þá étur hann mikið af stórum kúfiski. Einnig étur hann burstaorma, slöngustjörnur og krabbadýr. Og þörunga forsmáir hann ekki. Sandkolinn er mjög gráðugur fiskur og keppir m.a. við ýsuna um fæðu þar sem um er að ræða skeldýr og burstaorma.

Hrygning fer fram á 20-40 m dýpi. Hér við land hefst hún í seinni hluta apríl við suðurströndina og færist síðan til Vestur-, Norður- og Austurlands á næstu mánuðum. Er hrygningu víðast lokið í ágústmánuði og reyndar fyrr við suðurströndina. Eggin eru mjög smá, 0,6-0,9 mm í þvermál og sviflæg. Fjöldi þeirra í hverri hrygnu er um 50-150 þúsund. Seiði eru um 2,5 mm við klak og halda þau sig í svifinu fyrst í stað en leita til botns þegar þau eru um 1,5-3 cm á lengd.

Vöxtur er nokkuð hraður fyrstu árin en dregur úr honum þegar kynþroska er náð. Þá eru hængar 2-3 ára en hrygnur 3-4 ára. Þær verða eldri og stærri en hængarnir. Sandkolinn getur orði a.m.k. 14 ára.

Nytjar: Nytsemi er nokkur og hafa Danir, Frakkar, Skotar og Hollendingar verið alliðnir við að veiða sandkola, einkum í Norðursjó, Kattegat, Skagerak og Ermasundi.

Hjá Íslendingum hefur sandkoli ekki verið hátt skrifaður og það var ekki fyrr en 1984 sem farið var að veiða sandkola hér til útflutnings að einhverju ráði. Það árið varð aflinn 447 tonn. Árin 1996 og 1997 veiddu Íslendingar tæp 8 þúsund tonn hvort ár á Íslandsmiðum.

 

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?