Sandhverfa

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Scophthalmus maximus
Danska: pighvarre
Færeyska: hvassakvoysa
Norska: piggvar
Sænska: piggvar
Enska: Turbot
Þýska: Steinbutt
Franska: turbot
Spænska: rodaballo
Portúgalska: pregado
Rússneska: Belokóryj páltus

Lögun sandhverfu er allsérkennileg. Hún er næstum kringlótt ef sporðblaðka er undanskilin. Haus er í meðallagi stór, kjaftur er stór og skoltar sterklegir en tennur eru smáar. Augu eru frekar smá. Bakuggi byrjar rétt við fremri jaðar hægra auga eða framar. Sporður er stór og bogadreginn fyrir endann. Kviðuggarætur eru langar. Hreistur vantar en í stað þess er vinstri hliðin, þ.e. sú sem upp snýr, þéttsett hvössum beinkörtum. Þessar körtur koma líka stundum fyrir á blindu hliðinni (þeirri hvítu). Rák er greinileg og myndar bug yfir eyruggum. Sandhverfan getur náð um 100 cm lengd. Sú stærsta sem hér hefur veiðst var 85 cm og veiddist vestur af Reykjanesi árið 2000. Árið 2021 veiddist sandhverfa af sömu stærð við Ingólfshöfða. Sandhverfa er þó sjaldan lengri en 50-60 cm hér við land.

Geislar: B: 57-72; R: 42-56; hryggjarliðir: 30-31.

Heimkynni sandhverfu eru í norðaustanverðu Atlantshafi meðfram stönd Noregs og inn í Skagerak, Kattegat og Eystrasalt, í Norðursjó, við Bretlandseyjar og suður með ströndum Evrópu inn í Miðjarðarhaf. Í Svartahafi er undirtegund, Psetta maxima maeotica. Þá veiðist sandhverfa við Færeyjar og Ísland.

Sandhverfa veiddist fyrst á Íslandsmiðum í apríl árið 1914 en þá fékkst ein á Selvogsbanka. Á árunum 1914 til 1938 voru skráðar 9 sandhverfur á Íslandsmiðum á svæðinu frá Bollasviði í Faxaflóa suður fyrir land og austur til Finnafjarðar undir Norðausturlandi.

Auk þess var vitað um fleiri sem höfðu veiðst. Engin sandhverfa var skráð á árunum 1939 til 1956 en frá 1957 til 1972 voru 19 skráðar og þar af níu árið 1972. Frá 1974 hefur sandhverfa veiðst næstum árlega hér við land og stundum fleiri en ein á ári og frá 1992 hafa borist margar sandhverfur árlega til tilrauna eldisstöðvar Hafrannsóknastofnunar í Grindavík, flestar árin 1998 og 1999 en þá fékk stöðin á þriðja tug hvort árið. Sandhverfa hefur fundist allt í kringum landið en er mun algengari í hlýja sjónum suðaustan-, sunnan- og suðvestanlands en norðan- og austanlands. Hún hefur verið talin flækingur hér á Íslandsmiðumþví aldrei hefur orðið vart eggja né seiða og mjög smáir fiskar eru mjög sjaldséðir (smæstir 30-40 cm). Fiskar þeir sem hér hafa veiðst hafa verið 30-77 cm langir.

Lífshættir: Sandhverfa er botnfiskur og heldur sig á grunnsævi á sendnum og hörðum botni. Hún hefur fundist niður á um 180 m dýpi hér við land (Breiðamerkurdjúp 1986 og Látragrunni 1991) en almennt á 10-70 eða 80 m dýpi sunnar í álfunni.

Fæða er alls konar smáfiskar eins og sandsíli, ýsa og ýmsir flatfiskar en einnig smá krabbadýr, skeldýr og fleira.

Fundist hafa hrygnur með vel þroskuð hrogn og jafnvel hrygnur með vel þroskuð hrogn og jafnvel hrygnandi hér við land ( í Faxaflóa í júlí 1982 og í Meðallandsbugt í maí 1985) en ósennilegt er að eitthvað hafi komist upp af þeim. Ef sjávarhiti á efti að hækka mikið frá því sem nú er þá gæti þó orðið breyting þar á. Í Norðursjó hrygnir hún á 10-40 m dýpi í apríl til ágúst. Fjöldi eggja er 5-15 miljónir. Þau eru 1 mm í þvermál og klekjast á 7-9 dögum. Lirfan er 2,2-2,8 mm við klak og þegar hún er 13-16 mm löngbyrjar umbreytingin og hægra augað fer að færast yfir á vinstri hlið. Breytingu er lokið við 25 mm lengd og þá hefst botnlíf seiðanna sem eru 4-6 mánaða gömul.

Vöxtur er allhraður og ná hængar í Norðursjó 30 cm lengd á þremur árum en hrygnur 35 cm. Sandhverfan verður kynþroska þriggja til fimm ára og nær a.m.k. um 15 ára aldri. Sumar heimildir segja 26 ára.

Bastarðar á milli sandhverfu og slétthverfu þekkjast bæði í náttúrunni og í tilraunabúrum. Þeir líkjast báðum foreldrum, t.d. er roðið á haus og beggja vegna á bol með örður en þó ekki eins greinilegar og á sandhverfu.

Nytjar: Sandhverfa veiðist með öðrum fiskum í botnvörpu, dragnót og á línu en afli er ekki mikill, um 10 þúsund ton á ári að meðtöldum afla úr Miðjarðar- og Svartahafi. Aðalveiðisvæði eru í Norðursjó, Ermasundi og í Biskajaflóa. Þá hefur hún verið alin upp í ediskerum í volgu vatni frá orkuverum í Evrópu og hún hefur verið flutt til Nýja- Sjálands og sett þar í sjó með góðum árangri.

Erlendar veiðiþjóðir (Belgar, Frakkar, Skotar og fleiri) sem veiddu á Íslandsmiðum hér áður fyrr gáfu stundum upp smáafla af sandhverfu á Íslandsmiðum eða allt frá tæpu tonni á ári og upp í 40 tonn árið 1961 sem verður að teljast frekar hæpið.

Um árabil hefur verið safnað lifandi sandhverfum sem veiðst hafa við Ísland og þær aldar í búrum í eldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað í Grindavík og látnar hrygna. Hefur þar tekist að ala seiði upp í fullorðinn fisk.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?