Rauðháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Centrophorus squamosus
Danska: Brun pighaj
Norska: Brunhå
Enska: Leafscale gulper shark
Þýska: Blattschuppiger Schlingarhai, Brauner Dornhai
Franska: Squale-chagrin de l'Atlantique
Spænska: Quelvacho negro
Portúgalska: Lixa

Rauðháfur er grannvaxinn og sívalur. Hausinn er allstór eða um einn sjötti hluti lengdarinnar. Trjónan er miðlungslöng, frammjó og með allhvassar brúnir á báðum hliðum. Kjaftur er í meðallagi stór. Tennur eru smáar, einyddar og hvassar í efri skolti og þær sem eru til hliðar eru með dálítið hallandi broddi og líkjast nokkuð tönnum í neðri skolti en á þeim er broddurinn nánast á hliðinni. Augu eru stór. Innstreymisop eru hátt uppi á haus. Tálknaop fara stækkandi aftur eftir. Bolur er þrefalt lengri en hausinn. Stirtlan er sterkleg. Bakuggar eru tveir og sá fremri er Iægri og lengri en sá aftari. Bakuggagaddar eru stuttir og sterklegir. Sporður er fremur stuttur og skarð í neðri fönina aftanverða. Afturhorn eyrugga er hvasst. Húðtennur eru stórar, hreisturkenndar og skaraðar. Þær stærri eru blaðkenndar, egglaga og með þremur rifjum að ofan og festar á stuttan legg. Rák er ógreinileg. Rauðháfur getur náð 160 cm lengd.

Litur rauðháfa er rauðgrár.

Heimkynni rauðháfs eru í austanverðu Atlantshafi frá vestur-, suðvestur-, suður- og suðausturströnd Íslands til Færeyja og meðfram vestanverðum landgrunnsbrúnum Evrópu suður til Senegal í Afríku. Hann hefur fundist við Madeira og Asóreyjar en ekki í Miðjarðarhafi. Þá finnst hann frá Gabon til Zaire, við Namibíu og Suður-Afríku.Í Indlandshafi finnst hann norðan við Madagaskar. Í Kyrrahafi við Japan, Filippseyjar, Suðaustur-Ástralíu og Nýja-Sjáland. Hér veiddist rauðháfur fyrst á línu skosks línuveiðara á 230 metra dýpi við Vestmannaeyjar í september 1898. Hann veiðist nú nokkuð oft á svæðinu frá suðaustanverðu landinu um Háfadjúp og Selvogsbanka og langt út á Jökulbanka og norður á móts við Víkurál. Hann er algengur á 500-800 metra dýpi á þessum slóðum og djúpt út af Reykjanesi.

Lífshættir: Rauðháfurinn er djúp- og botnfiskur (en heldur sig hugsanlega stundum miðsævis) sem veiðst hefur á 145—2400 m dýpi. Hann er algengastur í landgrunnshallanum og sjaldan á meira en 1000 m dýpi. Einnig hefur hann veiðst miðsævis á 1250 m dýpi þar sem botndýpi var 3940 m.

Fæða er einkum fiskar eins og gjölnir, keila, kolmunni, bláriddari og fleiri djúpfiskar en einnig krabbadýr, smokkfiskar og fleira. Í maga rauðháfs sem veiddist suðvestur af landinu fundust tvö pétursskip úr trjónufiski (Rhinochimaera atlantica).

Um fjölgun er lítið vitað nema 12 egg, 8-9 cm í þvermál, fundust í hrygnu sem veiddist í miðjum júlí við Vestmannaeyjar.

Nytjar: Nytsemi er lítil en þó hefur rauðháfur verið veiddur frá fornu fari við Portúgal og hafður til matar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?