Mjóhali

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Coryphaenoides brevibarbis
Danska: butsnudet skolæst
Færeyska: Stuttskeggjað langasporl
Sænska: puckelryggig skoläst
Enska: Shortbeard grenadier

Mjóhali er hausstór, langvaxinn og nokkuð stóreygur. Hann fer mjókkandi aftur eftir og endar sporður í mjóum sporðblöðkulausum hala.

Trjónan er nokkuð þverstýfð og kjafturinn allstór. Tennur í skoltum eru af meðalstærð og í einfaldri röð í neðri skolti en tvöfaldri í þeim efri. Hökuþráður er stuttur, styttri en þvermál augna. Fremri bakuggi er stuttur en allhár, aftari bakuggi er langur og lágur. Raufaruggi nær aðeins lengra fram en bakuggi og er lengri. Eyruggar eru vel þroskaðir. Rætur kviðugga eru framan við rætur eyrugga. Hreistur er hrjúft og rák greinileg.

Mjóhali verður allt að 43 cm á lengd.

Litur: Mjóhali er fölbrúnn á lit en granir, kjaftur, tálknalok og lífhimna eru svört.

Geislar: Bl: 9-10.

Heimkynni mjóhala eru í norðaustanverðu Atlantshafi, frá norðvestanverðum Spáni og Asóreyjum vestur fyrir Bretlandseyjar til Íslandsmiða og Grænlands suðaustanverðs. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við Grænland suðvestanvert og undan ströndum Norður-Ameríku í hallanum út af Georgsbanka vestur af Þorskhöfða.

Á Íslandsmiðum fannst mjóhali fyrst í september árið 1973 á 2055-2060 m dýpi djúpt undan Vesturlandi (64°30'N, 29°44'V) í leiðangri Vestur-Þjóðverja á rannsóknaskipinu Walter Herwig. AIls veiddust sjö fiskar sem voru 15- 43 cm langir. Næst veiddist hann í ágúst árið 1995 á 2267 og 2295 m dýpi um 120 sjómílur suður af Ingólfshöfða (61°50'N, 16°54'V og 61°43'N, 16°57'V). Átta fiskar veiddust, 12-26 cm langir. Einnig veiddist einn, 16,5 cm langur, á 2400 dýpi suður af Kötluhrygg (61°10'N, 18°00'V).

Lífshættir: Mjóhalinn er miðsævis- og djúpfiskur á 1500-3200 m dýpi. Fæða hans er alls konar smákrabbadýr.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?