Lúsífer

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Himantolophus groenlandicus
Danska: Reinhardts fakkelangler
Færeyska: Grønlandstussi
Enska: Atlantic footballfish
Franska: football atlantique
Rússneska: Gimantolóf

Lúsífer er hár og stuttvaxinn fiskur, dálítið kúlulaga og minnir mest á gamlan fótbolta sem loftið hefur lekið úr. Haus er mjög stór, kjaftur víður og skástæður. Neðri skoltur nær fram fyrir þann efri. Tennur á skoltum eru allstórar og hvassar og vísa aftur. Augu eru mjög lítil. Bolur er stuttur og stirtlan mjög stutt. Spyrðustæði er þykkt. „Veiðistöng" á enni kvíslast í endann eins og trjágrein. Á enda þessara greina eru lýsandi kúlur. Bakuggi er mjög aftarlega og eins og allir uggar fisksins mjög holdkenndur. Raufaruggi er lítill og þverstæður og vísar aftur líkt og sporðurinn og örlítið niður. Sporður er stór og bogadreginn fyrir endann eins og eyruggar sem eru í meðallagi stórir. Kviðugga vantar. Roð er þykkt og hveljukennt, slétt en þakið stórum og gödduðum beinplötum. Rák sést ekki. Lúsífer verður um 60 cm á lengd. Sá stærsti á Íslandsmiðum mældist 50 cm og veiddist suðvestur af Reykjanesi í nóvember árið 1988.

Litur er grár eða kolsvartur nema gaddaendar og Ijósfæri sem eru hvít.

Geislar: B: 5; R: 4; hryggjarliðir: 19.

Heimkynni lúsífers eru í öllum heimshöfum. Í norðaustanverðu Atlantshafi hefur lúsífer veiðst undan Madeira og Portúgal, suðvestan og vestan Írlands, vestan Skotlands og norður til Íslandsmiða og Austur-Grænlands. Í norðvestanverðu Atlantshafi hefur lúsífer veiðst við Vestur-Grænland og á Stórabanka við Nýfundnaland. Einnig við norðanverða Suður-Ameríku. Hann hefur veiðst við Suður-Afríku. Þá er hann í Suður-Kínahafi og við Japan.

Hér varð hans fyrst vart þegar einn fannst rekinn í Vestmannaeyjahöfn árið 1886. Fram til loka ársins 2000 hefur lúsífers orðið vart oftar en hundrað sinnum á Íslandsmiðum frá Þórsbanka við Suðausturland og vestur með Suðurlandi og vestur fyrir Reykjanes allt vestur og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls og hefur hann ýmist veiðst í botnvörpu, flotvörpu, net, Iínu eða rekið á fjörur. Þá hafa nokkrir bæst við það sem af er þessari öld. Frá árinu 1981 hafa nær árlega fengist tveir eða fleiri lúsíferar við Ísland. Hann er því alls ekki mjög sjaldséður á djúpmiðum hér við Suðaustur-, Suður-, Suðvestur- og Vesturland en á hinn bóginn sjaldséður á grunnslóð.

Lífshættir: Lúsífer er miðsævis-, botn- og djúpfiskur. Fullorðnar hrygnur hafa veiðst á 100 til 1000 m dýpi í Norður-Atlantshafi en seiði finnast frá yfirborði og allt niður á 3000 m dýpi. Þegar lúsífer veiðist grynnra en á 400 m dýpi er hann farinn að fjarlægjast mjög sitt náttúrulega umhverfi. Hængar lifa sjálfstæðu lífi, þ.e. þeir festa sig ekki á hrygnurnar eins og algengt er hjá mörgum skyldum tegundum af sædýflakyni. Hængarnir eru mjög smávaxnir, verða aðeins um 4 cm langir.


Lítið er vitað um fæðu en í maga nokkurra fiska hafa fundist ógreinanlegar fiskleifar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?