Grjótkrabbi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Cancer irroratus
Enska: atlantic rock crab
Franska: tourteau pointclos
Spænska: Jaiba de roca amarilla
Portúgalska: sapateira-de-rocha-do-Atlântico
Rússneska: skál ́nyj krab

Útlit

Grjótkrabbi er frekar stór krabbategund sem getur orðið allt að 15 cm að skjaldarbreidd. Skjöldurinn er sporöskjulaga, gulbrúnn til rauðfjólublár. Grjótkrabba svipar til töskukrabba (Cancer pagurus), hann er með tíu ávala og tennta geira á fram- og hliðarbrún skjaldar hvorum megin. Griparmar hafa hrjúfa áferð og ílanga hryggi.

Heimkynni

Grjótkrabbi fannst fyrst hér við land árið 2006 í Hvalfirði en talið er að hann hafi verið kominn hingað eigi síðar en 1999. Útbreiðsla hans hér við land hefur verið hröð og nú finnst hann nánast allt í kringum landið. Árið 2020 var hann kominn austur á Stöðvarfjörð.

Náttúruleg útbreiðsla grjótkrabba er við austurströnd Norður-Ameríku.

Lífshættir

Fullvaxin karldýr eru stærri en kvendýr og karldýrið. Karldýrið festir sig á kvendýrið og heldur því þar til hamskipti eiga sér stað. Mökun verður fljótlega eftir hamskiptin og kvendýr bera eggin. Litarmunur er á nýjum eggjum og þeim sem þroskaðri eru. Í byrjun eru eggin ljósappelsínugul en dökkna þegar þau þroskast. Frjósemi kvendýranna fer eftir stærð þeirra, því stærri því fleiri egg. Úr eggjunum klekjast sviflægar lirfur.

Grjótkrabbi virðist hafa vítt þol á hita og seltu og hann er alæta sem trúlega ræður miklu um velgengni hans hér við land.

Nytjar

Grjótkrabbi er veiddur hér við land sem og í Kanada og Bandaríkjunum og þykir herramanns matur.

Heimildir/ ítarefni

Vefsíða Náttúrustofu Suðvesturlands https://www.natturustofa.is/grjotkrabbi.html

Óskar Sindri Gíslason, Jónas P. Jónasson, Snæbjörn Pálsson, Jörundur Svavarsson & Halldór P. Halldórsson (2017). Population density and growth of the newly introduced Atlantic rock crab Cancer irroratus Say, 1817 (Decapoda, Brachyura) in Iceland: a four-year mark-recapture study. Marine Biology Research, 13: 198-209, DOI: 10.1080/17451000.2016.1240875. https://www.natturustofa.is/uploads/1/3/2/1/13219126/gislason_et_al._2017.pdf

Ársskýrsla Náttúrustofu Suðvesturlands https://www.natturustofa.is/uploads/1/3/2/1/13219126/arsskyrsla_natturustofa_sudvesturlands_2024.pdf

Óskar Sindri Gíslason. 2009. Grjótkrabbi (Cancer irroratus) við Ísland: uppruni og lirfuþroskun með samanburði við bokrabba (Carcinus maenas) og trjónukrabba (Hyas araneus). Háskóli Íslands 2009. https://skemman.is/bitstream/1946/4348/1/OSG_MSc_2009_fixed.pdf

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?