Djúpkarfi

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Sebastes mentella
Danska: dyphavsrødfisk
Færeyska: trantkongafiskur
Norska: snabeluer
Enska: Deepwater redfish, Deepsea rosefish, Beaked redfish
Þýska: Schnabelbarsch, Tiefenbarsch
Franska: sébaste atlantique, sébaste du nord
Spænska: gallineta nórdica
Portúgalska: peixe-vermelho-da-fundura
Rússneska: Окунь клювач / Ókun' kljuvátsj

Djúpkarfi Iíkist gullkarfa í útliti en greinir sig frá honum í því að augu eru stærri og þrengra bil á milli þeirra. Þá er beintota fram úr og niður úr neðra skolti stærri á djúpkarfa. Neðstu gaddar í kinnbeinum beygjast fram á við. Einföld „þumalfingursregla" við að greina í sundur djúp- og gullkarfa er að strjúka (þumal-)fingri aftur með kinnbeinum. Ef fingur rispast er um djúpkarfa að ræða. Djúpkarfi getur orðið um 70 cm a lengd en er oftast 35-45 cm.

Litur er nokkuð frábrugðinn gullkarfa því djúpkarfi er rauðari og bleikari á kvið og litur allur jafnari. Sjómenn kalla því djúpkarfann oft „rauðan" (e. red) en gullkarfann „órans" (e. orange).

Geislar: B: XlIl-XIV+13-16; R: 111+8-10; hryggjarliðir: 30-3 l.

Heimkynni djúpkarfa eru í Norðaustur- Atlantshafi á svipuðum slóðum og gullkarfa.

Hann er við Austur-Grænland, milli Íslands og Grænlands, í Grænlandshafi suðvestan Íslands, sunnan Íslands, meðfram hryggnum á milli Íslands og Færeyja, við Færeyjar og norðan Bretlandseyja, undan Lófót í Noregi og norður í Barentshaf til Svalbarða. Í Norðvestur-Atlantshafi er hann frá Nýfundnalandsmiðum norður til Labrador, Davissunds og Vestur-Grænlandsmiða.

Hér við land er djúpkarfi algengur á djúpmiðum frá Færeyjahrygg vestur með landi og norður í Víkurál. Fullorðinn djúpkarfi er sjaldséður undan Norður- og Norðausturlandi. Helstu veiðisvæði hans hér eru í Skerjadjúpi, í djúpkantinum frá Reykjaneshrygg norður að Víkurál en einnig í kantinum sunnan Vestmannaeyja og allt austur í Rósagarð undan Suðausturlandi.

Nýlega var gerð allsherjarúttekt á breytileika djúpkarfa i Norður Atlantshafi. Samkvæmt þeim niðurstoðum er talið að djúpkarfi á og við Íslandsmið skiptist i a.m.k. þrjá stofna,- auk þess stofns sem heldur sig í köntunum við Ísland eru tveir stofnar í úthafinu suðvestur af Íslandi, svonefndur úthafskarfi.

Annars vegar er þar um að ræða svokallaðan efri stofn úthafskarfa sem heldur sig að mestu ofan 500 metra dýpis í Irmingerhafi, frá Stórabanka við Nýfundnaland að Íslandsmiðum. Efri stofninn er frábrugðinn öðrum stofnum að því leyti að karfinn er mun minni þegar hann verður kynþroska (um 30 cm), seiði eru stærri við got og fullorðinn heldur hann sig ofar í sjónum um gottímann og ætistímann á haustin. Þá er sá stofn oft mjög sýktur af sníkjuorðu, Sphyrion lurnpi, sem er krabbadýr og er allur fiskurinn oft meira eða minna sýktur, mest þó við gotraufina. Einnig eru svartir og rauðir blettir á roði mjög tíðir og dökkir blettir í holdi. Efri stofninn hefur verið veiddur frá 1982 í Irmingerhafi en verulega hefur dregið úr veiðum undanfarinn áratug.

Neðri stofn úthafskarfa hefur svipaða útbreiðslu og sá efri, en þó er meginútbreiðslan bundin við svæðið utan landgrunns Íslands vestur- og suðvestur af landinu og suður að Hvarfi. Þessi stofn hefur verið nýttur frá miðjum tíunda áratug síðustu aldar og veiðar verið aðallega djúpt suðvestur af landinu, við og innan 200 mílna lögsögu Íslands.

Þó að nú sé litið á þetta sem þrjá aðskilda stofna er vel hugsanlegt að þarna sé um fleiri en eina tegund að ræða. Talið er að uppeldisslóð allra stofnanna sé á og við landgrunn Austur-Grænlands. Auk ofangreindra stofna er talið að djúpkarfi í Barentshafi, í Síldarsmugunni norðaustur af Íslandi og við Noreg sé sérstakur stofn.

Lífshættir: Djúpkarfi er botn- og miðsævisfiskur sem veiðst hefur á 200-1000 m dýpi en hann lifir einkum á 500-800 m dýpi. Hann heldur sig neðar í köntunum en gullkarfi.

Fæða er mest ýmis smákrabbadýr, einkum Ijósáta og sviflægar marflær. Einnig smáfiskar eins og laxsíld.

Djúpkarfi gýtur lifandi afkvæmum eins og gullkarfi. Eðlun fer fram á haustin og eggin frjóvgast í gotunni í febrúar til mars og got fer síðan fram i mars til maí. Seiði eru 7-8 mm við got og fjöldi úr hrygnu 40-400 þúsund. Gotið fer einkum fram á 500-700 m dýpi í um 6°C heitum sjó djúpt suðvestur af landinu. Seiðin berast með straumum út í Grænlandshaf og rekur yfir til landgrunnsins við Austur-Grænland þar sem þau leita síðan botns og alast upp, einkum á 200-400 m dýpi við 3-4°C.

Vöxtur djúpkarfa er hægur. Kynþroska er náð við 37-42 cm lengd en mjög erfitt er að áætla aldur hans. Þó verður efri stofn úthafskarfa kynþroska smærri eða á bilinu 29-32 cm.

Óvinir djúpkarfa eru m.a. allskonar sníkjudýr sem ásækja hann, þ. á m. eru spóluormar og bandormar innvortis, krabbafló sest á tálknin og önnur tegund, sníkjuorða, Sphyrion lumpi, er á honum útvortis.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?