Brandháfur

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Hexanchus griseus
Danska: Seksgællet haj
Færeyska: Sekstáknuhávur
Norska: Kamtannhai
Sænska: Sexbågig kamtandhaj
Pólska: Szescioszpar
Enska: Bluntnose sixgill shark
Þýska: Grauhai
Franska: Requin griset
Spænska: Cañabota
Portúgalska: Albafar
Rússneska: акула шестижаберная

Ljósmynd vantar.

 

Helsta einkenni brandháfs eru sex stór tálknaop og er það fremsta lengst. Auk þess er sporður mjög Iangur eða þriðjungur lengdarinnar. Bolur er sívalur, miðlungi digur að framan og mjókkar aftur eftir. Ekkert skarð er í sporðuggarætur en greinilegt skarð í aftanverða neðri fön. Hliðarrák er greinileg og nær frá aftasta tálknaopi aftur á sporð. Húðtennur á bolhliðum eru venjulega þrístrendar. Haus er flatur og trjóna stutt og bogadregin. Lengd frá trjónuoddi að kjafti er aðeins um helmingur af kjaftvíddinni. Augu eru áberandi stór. Innstreymisop eru mjög smá. Nasaop eru lítil og liggja miklu nær trjónubroddi en kjafti. Kjaftur er stór og tennur mjög ólíkar í efri og neðri skolti. Bakuggi er einn og liggur á milli kvið- og raufarugga, nær raufarugga. Kvið- og raufaruggar eru litlir. Rætur kviðugga eru ívið lengri en hálf önnur rótarlengd bakugga. Eyruggar eru lengri en þeir eru breiðir. Brandháfurinn verður um 4-5 m að lengd.

Litur nýveiddra brandháfa er kaffibrúnn og dekkstur meðfram miðlínu baks eða mjög dökkgrár að ofan en fölleitur eða hvítleitur að neðan. Ungir fiskar eru brúnir.

Heimkynni brandháfs eru í öllum heimshöfum. Hann er í Norðaustur-Atlantshafi frá íslandsmiðum og a.m.k. einn hefur veiðst við Noreg. Þá er hann við Færeyjar, Bretlandseyjar, í Norðursjó og áfram suður í Miðjarðarhaf. Einnig við Asóreyjar og meðfram strönd Vestur-Afríku og við Namibíu og Suður-Afríku. Í norðvestanverðu Atlantshafi er hann við sunnanverð Bandaríkin og í Mexíkóflóa, við Kúbu, Níkaragva, Kostaríka og Venesúela. Í Suðvestur-Atlantshafi við Suður-Brasilíu og Norður-Argentínu. Í Indlandshafi við Mosambík og Madagaskar, Aldabra- og Kormóraneyjar. Í Kyrrahafi við austanverðar Japanseyjar, Taívan og víðar. Einnig er hann við Alaska suður til Mexíkó og við Chile. Þá finnst hann við Ástralíu og Nýja-Sjáland.

Hér við land varð brandháfs líklega fyrst vart árið 1920 þegar þýskur togari veiddi einn sennilega undan suðurströndinni (gæti þó alveg eins hafa verið við Færeyjar). Í desember árið 1933 rak 3 m langa hrygnu á Breiðamerkursandi og í febrúar 1960 veiddi þýskur togari brandháf á 480 m dýpi djúpt undan landinu suðvestanverðu. Í september árið 1990 veiddist 148 cm hængur í net á 33 m dýpi í Faxaflóa. Á árunum 1993-2000 veiddust sjö á svæðinu frá Faxaflóa og suður fyrir Reykjanes til Vestmannaeyja. Brandháfar þessir voru 135-180 cm langir og veiddust á 55-550 m dýpi, ýmist í net, botnvörpu eða á línu, á tímabilinu apríl til nóvember. Í september 2006 veiddist einn 185 cm langur í net út af Hellissandi.

Lífshættir: Brandháfurinn er hægfara botn- og miðsævisfiskur sem hefur sést allt frá yfirborði og veiðst niður á um 2000 m dýpi. Hér hefur hann veiðst á 33-550m dýpi. Sennilega heldur brandháfurinn sig við botn á daginn en leitar upp í efri lög sjávar í fæðuleit á nóttunni.

Fæðan er margbreytileg, allt frá öðrum háfiskum og m.a. eigin félögum sem fest hafa á línukrókum, skötum, hámúsum, alls konar beinfiskum eins og sverðfiski, seglfiskum, síld, langhölum, þorski, löngu, lýsingi, flatfiskum, urrurum og skötusel auk kolkrabba, rækju ogjafnvel sela.

Brandháfurinn gýtur ungum, mjög mörgum í senn, 20-50 jafnvel allt að 100 og eru þeir 60-70 cm að lengd við got.

Nytjar: Sums staðar er brandháfur nokkuð algengur og er hann þá veiddur á línu, í net, gildrur og flot- eða botnvörpur. Kemur hann á markað ýmist nýr, frosinn, saltaður eða er bræddur í mjöl og lýsi.

Brandháfur er ekki talinn vera mannskæður en getur þó bitið vel frá sér þegar hann er áreittur.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?