Bláriddari

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lepidion eques
Danska: blå ridder
Færeyska: bláriddari
Norska: dypvannsmoride
Sænska: brun djuphavstorsk
Enska: North Atlantic codling
Franska: Lepidion á grands yeux

Bláriddari er langvaxinn fiskur, gildvaxinn um bol og nokkuð hár en stirtla mjókkar aftur og er spyrðustæði mjög grannt. Haus er í meðallagi og snjáldur er stutt. Kjaftur er lítill og fiskurinn örlítið undirmynntur. Tennur eru smáar. Á höku er stuttur skeggþráður. Augu eru stór. Fremri bakuggi er mjög stuttur og fremsti geisli hans mjög langur. Niðurlagður nær hann aftur fyrir miðjan fisk. Aftari bakuggi er langur, lækkar um miðjuna en hækkar aftast. Raufaruggi er langur en þó styttri en aftari bakuggi. Sporður er mjög lítill. Eyruggar eru vel þroskaðir en grannir. Kviðuggar eru litlir og efsti geisli þeirra lengri en hinir geislarnir og þráðkenndur. Hreistur er smátt. Rák er greinileg, bogadregin á bol en bein á stirtlu. Seiði eru mjög ólík foreldrum sínum, kviðmikil og bakuggageislinn langi ekki kominn í ljós.

Í mars árið 1993 veiddist 67 cm bláriddari á Reykjaneshrygg (61 °57'N, 26°48'V). Sá næstlengsti sem veiðst hefur á Íslandsmiðum var rúmlega 40 cm og í fræðibókum er hann ekki talinn verða lengri en 44 cm að sporði sem gæti samsvarað um 50 cm heildarlengd.

Litur er dökk- eða Ijósrauðgrár að ofan og á hliðum, Ijósgrár á kvið og neðan á haus, ljósblár eða fjólublár á stöku uggunum. Kjaftur, tálknaholur og kviðarhol eru svört að innan. Geislar: B1: 4; B2: 52-62; R: 49-54. Heimkynni bláriddara eru í norðaustanverðu Atlantshafi við Asóreyjar og frá Biskajaflóa norður meðfram landgrunnshallanum sunnan og suðvestan Bretlandseyja til Færeyja, Íslands og Austur-Grænlands. Í norð- vestanverðu Atlantshafi er hann við Vestur- Grænland, Labrador og Nýfundnaland.

Hér fannst hann fyrst í júlímánuði árið 1903 en þá veiddi rannsóknaskipið Thor 40 bláriddara á 955 m dýpi 40 km suðaustur af Vestmannaeyjum. Talsvert er um hann á djúpmiðum hér við land frá Íslands-Færeyjahryggnum vestur og norður á grálúðuslóð vestan Víkuráls.

Lífshættir: Bláriddari er botnfiskur á leir- og sandbotni í landgrunnshallanum og dýpra. Hann hefur veiðst á 127-1850 m dýpi í Norðaustur-Atlantshafi. Hér hefur hann veiðst á minna en 500 m dýpi og niður á meira en 1100 m. Hann er algengur hér á 600-700 m dýpi.

Fæða er einkum alls konar smákrabbadýr eins og marflær, krabbaflær, krabbar og einnig burstaormar og smokkfiskar.

Bláriddari virðist hrygna hér í febrúar til mars og jafnvel apríl. Bæði hængar og hrygnur geta verið orðin kynþroska 28-29 cm löng. Hrygnur jafnvel 22-23 cm. Egg og seiði eru sviflæg yfir miklu dýpi og hefur þeirra orðið vart m.a. sunnan Íslands, vestan Bretlandseyja og Færeyja.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?