Bersnati

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Xenodermichthys copei
Danska: kortsnudet glathovedfisk
Færeyska: lítliglámur
Enska: bluntsnout smoothead
Franska: gymnaste atlantique

Bersnati er lítill fiskur, þunnvaxinn, hæstur á mótum hauss og bols en smámjókkar þaðan og aftur úr. Haus er stór, trjónan stutt og ennið er kúpt. Augu eru stór, stærri en trjónulengdin. Kjaftur er lítill og nær aftur á móts við mið augu og er bersnati jafnskolta. Tennur eru smáar. Tálknaop eru stór og víð. Bak- og raufaruggar eru jafnlangir, aftarlega og andspænis hvor öðrum. Sporður er lítill og sýldur. Eyr- og kviðuggar eru litlir. Roðið er þykkt, hreistur vantar en smá körtulaga ljósfæri eru á hliðum. Rák er hins vegar ekki sjáanleg. Bersnati verður um eða undir 20 cm á lengd.

Litur er svartur.

Geislar: B, 27-33; R: 26-32; hryggjarliðir: 46-50.

Heimkynni bersnata eru víða í Atlantshafi, einnig í Indlandshafi og austanverðu Kyrrahafi. Í austanverðu Atlantshafi hefur hann fundist við Austur-Grænland, Ísland, á hryggnum á milli Íslands og Færeyja, vestur fyrir Bretlandseyjar og áfram suður til Gíneuflóa, Angóla og Suður-Afríku. Í norð- vestanverðu Atlantshafi finnst hann við Suðvestur-Grænland og frá strönd Virginíu í Bandaríkjunum suður til Mexíkóflóa og undan Suður-Brasilíu.

Hér finnst bersnati víða á djúpmiðum undan Suðaustur-, Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi og á milli Íslands og Grænlands. Hans varð fyrst vart á Íslandsmiðum í ágúst árið 1950 og síðan í júlí 1951 í Rósagarðinum djúpt undan Suðausturlandi.

Lífshættir: Bersnati er miðsævis-, botn- og djúpfiskur sem hefur fundist allt niður á 3500 m dýpi en mun vera algengastur á 100-1000 m dýpi. Hér er hann sjaldan grynnra en á 200 m dýpi.

Fæða er einkum krabbadýr eins og ljósáta, krabbaflær, marflær en einnig skelkrabbar og smáir smokkfiskar.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?