Atlantslaxsíld

Tungumál Samheiti
Fræðiheiti: Lampanyctus intricarius
Danska: Bredhalet prikfisk
Sænska: Gällockprickfisk
Enska: Diamondcheek lanternfish

Atlantslaxsíld er langvaxin, þunnvaxin og grannvaxin. Hausinn er allstór og augu stór. Skoltar ná langt aftur fyrir augu. Raufaruggi er lengri en bakuggi og byrjar á móts við aftari rætur hans. Lítill veiðiuggi er andspænis aftari rótum raufarugga og aðeins nær bakugga en sporði. Eyruggar eru mjög langir, ná næstum að rauf, en kviðuggar miklu styttri. Rætur þeirra eru rétt framan við eða andspænis fremri rótum bakugga.

Ljósfæri eru kjammaljós, fjögur brjóstljós, fjögur raufarljós, kviðuggaljós miðja vegu á milli rákar og kviðuggaróta, raufaruggaljós, stirtluljós, tvö spyrðuljós en það neðra er tæplega greinanlegt frá stirtluljósum. Þá eru einnig ofanraufarljós og hliðarljós, auk þess sem ljóskirtill er á veiðiugga og bæði ofan og neðan á stirtlu. Atlantslaxsíld nær um 24 cm lengd.

Geislar: B: 14-16,- R: 17-20.

Heimkynni atlantslaxsíldar eru bæði á norður- og suðurhveli jarðar og í norðaustanverðu Atlantshafi er hún m.a. á milli 32° og 65°N þó sennilega séu það flækingar sem finnast nyrst. Hún hefur sést á Íslandsmiðum og við Austur-Grænland en er sjaldséð í norðvestanverðu Atlantshafi.

Danska rannsóknaskipið Thor fékk nokkrar atlantslaxsíldar, 2,4—16,7 cm langar, á tveimur stöðum við Ísland og var sá nyrðri á 65°N í Grænlandshafi. Í ágústlok árið 1950 veiddist ein í Rósagarðinum suðaustan Íslands og tvær í júlí 1951. Síðan hafa nokkrar veiðst víðar á Íslandsmiðum.

Lífshættir:  Atlantslaxsíld er úthafs- og miðsævisfiskur sem veiðst hefur niður á 750 m dýpi.

 

Byggt á bókinni, Íslenskir fiskar. ( Mál og menning 2013), Höfundar: Gunnar Jónsson og Jónbjörn Pálsson. (2013).

 

 

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?