Sumarleiðangri á Þórunni Þórðardóttur nýlokið

Sumarleiðangri á Þórunni Þórðardóttur nýlokið

Sumarleiðangri á Þórunni Þórðardóttur er lokið en hann stóð í 20 daga, frá 5. til 24. ágúst. Í leiðangrinum var fjölbreyttum verkefnum á sviði hafeðlisfræði, loftslagsrannsókna sinnt en auk þess voru umhverfisáhrif af sjókvíaeldim sæbjúgu og marsíli rannsökuð.

Leiðangurinn er hluti af langtímavöktun á ástandi sjávar, með mælingum á hita, seltu, súrefni o.fl. á föstum mælistöðvum umhverfis landið. Auk þess hefur sýnum verið safnað til að greina koltvíoxíð og súrnun sjávar.

Ástand sjávar er undirstaðan fyrir vistkerfið í hafinu og með langtímamælingum er unnið að greiningu áhrifa vegna loftslagsbreytinga á hafsvæðið í kringum Ísland.

Mælingar á 1000m dýpi með nýjustu hafmælingatækni

Nýja rannsóknaskipið, Þórunn Þórðardóttir HF 300, er útbúið tveimur straumsjám (Acoustic Doppler Current Profiler, ADCP) og er leiðangurinn sá fyrsti þar sem mælingar á hafstraumum í allt að 1000 m dýpi hafa verið gerðar á meðan á siglingu stóð allt í kringum landi.

Einnig var skipt um fjórar straumlagnir í Grænlandssundi, á Hornbanka og milli Íslands og Færeyja. Mælingarnar fara fram í samstarfi við háskóla í Hamburg og Woods Hole Oceanographic Institution.

Mælingar á botnseti, sæbjúgum og fleiru

Á Austfjörðum var farið í Seyðisfjörð, Reyðarfjörð og Berufjörð til að greina umhverfisáhrif sjókvíaeldis með mælingum á botnseti, botndýrum, næringarefnum og ástandi sjávar í mismunandi fjarlægð frá eldiskvíum. Mælingarnar í Seyðisfirði hafa verið gerðar í fyrsta skipti til að kortleggja náttúrulegt ástand fjarðarins án fiskeldis.

Síðast en ekki síst fóru fram stofnmælingar á sæbjúgum utan við Vestfirði og Austfirði og í Faxaflóa, og marsílum sunnan lands og í Faxaflóa.

Unnið er að úrvinnslu gagna, en niðurstöður verða tilkynntar í sérstökum fréttum í haust.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?