Stofnmæling hrygningarþorsks með þorskanetum (SMN) 2023

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Út er komin skýrsla um netarall sem fór fram dagana 28. mars til 22. apríl 2023. 

Í skýrslunni eru sýndar lífmassavísitölur helstu fisktegunda er fást í netaralli, ásamt útbreiðslu háffiska, krabba, sjófugla og sjávarspendýra. Einnig er fjallað um merkingar á hrygningarþorski sem fram hafa farið í netaralli síðustu fjögur ár og gerð grein fyrir niðurstöðum merkinganna.

Stofnmæling hrygningarþorsks með þorskanetum (SMN) 2023

Farið er yfir framkvæmd og helstu niðurstöður stofnmælingar hrygningarþorsks með þorskanetum (SMN, netarall) sem fór fram í 28. sinn dagana 28. mars til 22. apríl 2023.

Stofnvísitala hrygningarþorsks við Ísland er há í ár eins og hún hefur verðið síðastliðin 13 ár, en er heldur lægri en í fyrra. Lækkun stofnvísitölu frá síðasta ári má að mestu rekja til þess að minna fékkst í Fjörunni og á Selvogsbanka, en minni breytingar eru á öðrum svæðum. Þorskur 7-9 ára er algengastur í netaralli, og mest var af 8 ára þorski (árgangur 2015).

Ástand þorksins

Ástand þorsks (hér metið sem slægð þyngd og þyngd lifrar miðað við lengd) er um eða undir meðaltali tímabilsins 1996-2023. Talsverður breytileiki er þó á ástandi á milli svæða, aldurshópa og lengdarflokka. Verulegar breytingar hafa orðið á meðalþyngd þorsks eftir aldri á rannsóknar-tímanum. Meðalþyngd fór að hækka árið 2010 við vestanvert landið og við Norðurland, en hefur lækkað aftur síðustu ár. Meðalþyngd þorsks eftir aldri við Suðausturland var há í upphafi rannsóknartímans, fór síðan lækkandi en hefur hækkað aftur. Kynþroskahlutfall eftir aldri breytist lítið hjá algengustu aldurshópum milli ára.

Ufsi

Stofnvísitala ufsa í netaralli hefur verið há flest ár frá árinu 2016 og er svipuð í ár ef undanskilið er hámarkið árið 2019. Í ár eru tiltölulegar litlar breytingar á stofnvísitölu ufsa frá fyrra ári, en hún hækkar aðeins í Faxaflóa, Fjörunni og við Suðausturland. Mest fæst af 7-11 ára ufsa í netaralli.

Aðrar fisktegundir

Af breytingum á stofnvísitölum annarra fisktegunda í netaralli má helst nefna að vísitala ýsu hefur verið há síðustu sjö ár. Vísitölur löngu,keilu og steinbíts eru hærri en undanfarin ár. Vísitölur skarkola og skrápflúru eru þær hæstu frá upphafi en vísitala hrognkelsis lækkar áfram frá hámarki árið 2021.

Höfundar skýrslunnar

Valur Bogason, Jón Sólmundsson, Höskuldur Björnsson, Anna Ragnheiður Grétarsdóttir, Ásgeir Gunnarsson, Hlynur Pétursson, Ingibjörg G. Jónsdóttir, Magnús Thorlacius, Svandís Eva Aradóttir.

Nánar um framkvæmd og niðurstöður má finna í skýrslunni.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?