Sjósetning nýs rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar í dag

Sjósetning nýs rannsóknaskips Hafrannsóknastofnunar í dag

Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar verður sjósett síðdegis í dag 12. janúar í borginni Vigo á Spáni. Skipinu verður gefið nafnið Þórunn Þórðardóttir með formlegum hætti við það tækifæri. Nafnið fær skipið eftir fyrstu íslensku konunni sem var sérfræðimenntuð í hafrannsóknum og miklum frumkvöðli í rannsóknum á smáþörungum í hafinu við Ísland.

Áætlað er að nýja rannsóknarskipið verði afhent til Íslands í lok ársins. Skipið mun taka við af rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni sem fagnar í ár 54 aldursári sínu í þjónustu fyrir hafrannsóknir hér við land.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar segir að nýja rannsóknaskipið marki þáttaskil í hafrannsóknum hérlendis, hjá þjóð sem er eins háð sjávarútvegi og sjálfbærum veiðum og raun ber vitni.

„Það er með mikilli ánægju sem við nefnum nýja rannsóknarskipið Þórunni Þórðardóttur; í höfuðið á konu sem ól allan sinn starfsaldur hjá Hafrannsóknastofnun og áður hjá fyrirrennara stofnunarinnar (Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild) en eitt helsta afrek Þórunnar voru rannsóknir og mat á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum enda eru svifþörungar undirstaða fæðukeðju hafsins. Framlag Þórunnar til vísinda er okkur öllum mikilvægt og því vel við hæfi að skipið beri nafn hennar í hafrannsóknum næstu kynslóða vísindafólks,“ segir Þorsteinn.

Sjá nánar frétt á vef Hafrannsóknastofnunar frá 24. okt. 2023


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?