Ráðgjöf nytjastofna kynnt

Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir Ljósm. Svanhildur Egilsdóttir

Hafrannsóknastofnun kynnti úttekt á ástandi nytjastofna og ráðgjöf fyrir næsta fiskveiðiár þriðjudaginn 16. júní. Á grundvelli langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu er lagt til aflamark fyrir á fjórða tug stofna, sem miðast við varúðarsjónarmið og hámarksnýtingu til lengri tíma litið. Ráðgjöfina má nálgast á vef Hafrannsóknastofnunar undir Ráðgjöf https://www.hafogvatn.is/is/veidiradgjof

Hafrannsóknastofnun ráðleggur 6% lækkun á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 272.411 tonnum í 256.593 tonn fyrir fiskveiðiárið 2020/2021. Helsta ástæða lækkunar ráðgjafar er lækkun í stofnmælingum botnfiska auk þess sem nú eru vísitölur 1 til 14 ára þorsks notaðar í stofnmatið en áður var einungis notaðar vísitölur 1 til 10 ára þorsks.

Með því að bæta við 11-14 ára vísitölum í stofnmatið er hlutfallsleg sókn í elsta og stærsta fiskinum nú metin hærri en í millifiski, en var áður metinn lægri. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn verði svipaður að stærð á næstu árum nema að til komi verulega breytt nýliðun.

Samkvæmt aflareglu verður aflamark ýsu 45.389 tonn fiskveiðárið 2020/2021 sem er 9% hækkun frá fiskveiðiárinu 2019/2020. Ástæða hækkunarinnar eru bættar nýliðunarhorfur. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn ýsu stækki á næstu tveimur árum en eftir það er líklegast að hann standi í stað. Samkvæmt aflareglu verður aflamark ufsa 78.574 tonn fiskveiðiárið 2020/2021 sem er minnkun um um 2% frá síðasta ári.

Árgangar gullkarfa hafa verið með lakasta móti frá 2009 og af þeim sökum hefur hrygningarstofn minnkað á undanförnum árum og mun sú þróun halda áfram á næstu árum. Samkvæmt aflareglu verður heildaraflamark gullkarfa 2020/2021 því 38.343 tonn sem er 9% lægri ráðgjöf en fyrir síðasta fiskveiðiár. Ráðgjöf fyrir grálúðu hækkar um 10% frá fyrra ári og er 23.530 tonn fyrir fiskveiðárið 2020/2021.

Stofn íslensku sumargotssíldarinnar hefur minnkað ört á undanförnum árum vegna slakrar nýliðunar og frumdýrasýkingar í stofninum. Þannig hefur stofninn minnkað um nær 60% á undanförnum áratug. Samkvæmt aflareglu fyrir síld verður aflamark næsta fiskveiðiárs um 35.490 tonn, sem er 3% hækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári. Nú eru horfur á að nýliðun fari batnandi.

Ástand hlýrastofnsins er alvarlegt. Lífmassavísitölur benda til að stofninn hafi aldrei verið minni og nýliðunarbrestur hefur verið viðvarandi frá 2012. Afli hefur verið langt umfram ráðgjöf síðastliðin ár. Í ljósi þessa leggur Hafrannsóknastofnun til að afli hlýra verði ekki meiri en 314 tonn sem er 12% lækkun frá fyrra ári. Auk þess leggur stofnunin til að heimilt verði að sleppa hlýra sem er umfram aflamark. Rannsóknir sýna að hlýri er harðger og líklegur til að lifa af það harðræði sem fylgir því að vera veiddur og vera á dekki.

Samkvæmt stofnmati keilu hefur stofninn verið verulega ofmetinn síðustu ár. Ráðgjöf samkvæmt aflareglu stjórnvalda fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 er 2.289 tonn sem er um 41% lækkun frá fyrra ári.

Hafrannsóknastofnun gefur nú út ráðgjöf um veiðar á hörpudiski í Breiðafirði í fyrsta skipti frá því að atvinnuveiðum var hætt fiskveiðiárið 2002/2003. Tilraunaveiðar hafa staðið yfir undanfarin 6 ár á nokkrum svæðum í firðinum og benda niðurstöður þeirra til að nýliðun sé mjög lítil á flestum svæðum og því leggur stofnunin einungis til aflamark á tveimur svæðum í Breiðafirði, samtals 93 tonn.

Nýliðunarvísitölur margra stofna eins og hlýra, gullkarfa og blálöngu hafa verið lágar undanfarinn áratug. Áhrifa þessa er nú farið að gæta verulega í ráðgjöf stofnunarinnar en ástæða minnkandi nýliðunar er ekki þekkt.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?