Rannsóknaskipið fær nafn og verður sjósett 15. desember

Tölvumynd af nýju rannsóknarskipi sem mun bera nafn Þórunnar Þórðardóttur. Mynd frá Verkfræðistofunn… Tölvumynd af nýju rannsóknarskipi sem mun bera nafn Þórunnar Þórðardóttur. Mynd frá Verkfræðistofunni Skipasýn ehf.

Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar verður sjósett í Vigo á Spáni föstudaginn 15. desember.

Rannsóknarskipinu verður gefið nafnið Þórunn Þórðardóttir við þá athöfn.

Nafnið fær skipið eftir fyrstu íslensku konunni með sérfræðimenntuð í hafrannsóknum og miklum frumkvöðli í rannsóknum á smáþörungum í hafinu við Ísland. Skipið verður afhent í nóvember 2024.

Frumkvöðullinn Þórunn Þórðardóttir og HF 300

Rannsóknaskipið fær nafnið Þórunn Þórðardóttir og einkennisstafina HF 300. Skipið verður nefnt eftir miklum frumkvöðli í rannsóknum á frumframleiðni smáþörunga í hafinu við Ísland og fyrstu íslensku konunni með sérfræðimenntun í hafrannsóknum. Því er vel við hæfi að rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar beri nafn hennar.

Þórunn hafði alla tíð brennandi áhuga á starfi sínu og ástríða hennar var smitandi. Ófá, bæði starfsfólk og nemar, fengu notið þekkingar hennar og kennslu. Hvort sem var í tegundagreiningum svifþörunga, mælingum á frumframleiðni, eiturþörungarannsóknum eða öðrum rannsóknum sem lutu að svifþörungum.

Þegar ég hóf feril minn sem sumarstarfsmaður hjá Hafrannsóknastofnun árið 1987 kynntist ég Þórunni, mikilli umhyggju hennar fyrir fólki og smitandi ástríðu fyrir rannsóknum.

Mikill samhljómur er meðal okkar sem þekktum Þórunni að hvatning hennar var okkur mikilvæg og umhyggjan fyrir okkar hag og framtíð, hvort heldur sem var í vísindum eða í einkalífi.

Framlag Þórunnar til vísinda er okkur öllum mikilvægt og því vel við hæfi að skipið beri nafn hennar í hafrannsóknum næstu kynslóða vísindafólks.


Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar 

Fyrst kvenna á sínu sviði

Þórunn var fyrst íslenskra kvenna til að verða sérfræðingur á sínu sviði í hafrannsóknum. Að loknu námi, 1956, kom Þórunn til starfa hjá Hafrannsóknastofnun sem þá hét Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild.

Hún vann við sitt sérsvið allan sinn starfsaldur hjá stofnuninni, lengst af sem deildarstjóri á þörungadeild. Þórunn tók virkan þátt í að efla starf Hafrannsóknastofnunar og ekki síður með því að laða til sín ungt og áhugasamt fólk sem hún hafði leiðbeint við nám um frumframleiðendur hafsins.

Þórunn var vandvirk í sínum rannsóknum og hafði mjög góða yfirsýn yfir fræðasviðið. Hún skildi líka betur en flest önnur þörfina á að efla þekkingu á undirstöðum lífsins í sjónum. Þórunn var virk í alþjóðlegu samstarfi og deildi þar sinni mikilvægu þekkingu.

Frumkvöðull í heildarfrumframleiðni svifþörunga

Eitt helsta afrek Þórunnar voru rannsóknir og mat á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum enda eru svifþörungar undirstaða fæðukeðju hafsins.

Hún var jafnframt á meðal fyrstu sjávarlíffræðinga til að nota geislakolsaðferð til að meta framleiðni í sjónum.

Þórunn aðlagaði geislakolsaðferðina að íslenskum aðstæðum og enn í dag eru mælingar hennar í fullu gildi. Niðurstöður um ársframleiðni svifþörunga á hafsvæðinu birti hún í vísindagreinum ásamt upplýsingum um framvindu gróðurs á svæðinu.

Meira um Þórunni Þórðardóttur

Þórunn fæddist í Reykjavík þann 15. maí 1925. Hún var yngst 12 barna þeirra Katrínar Pálsdóttur, húsfreyju og bæjarfulltrúa í Reykjavík og Þórðar Þórðarsonar bónda og síðar gestgjafa í Tryggvaskála á Selfossi.

Þórunn ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá MR árið 1944. Hún stundaði nám í Lundi í Svíþjóð og síðar í Osló þaðan sem hún lauk námi árið 1955 með mag. scient. gráðu í jurtasvifi.

Þórunn var gift Norðmanninum Odd Didriksen og eignuðust þau 2 börn, Katrínu Didriksen gullsmið, skartgripahönnuð og kennara, og Einar Oddson, líffræðing og hljómlistarmann.

Þórunn hlaut heiðursviðurkenningu Lýðveldissjóðs Alþingis fyrir framlag sitt til rannsókna á hafinu við Ísland.

Þórunn lést 11. desember árið 2007.

Myndir af rannsóknaskipinu

Verkfræðistofan Skipasýn ehf. hefur haft umsjón með smíði nýja rannsóknaskipsins. Hér má sjá uppfærðar tölvumyndir með viðeigandi nafnamerkingum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?