Möguleg loðnuganga fyrir suðaustan land

Líklegt þykir að loðnutorfur hafi fundist suðaustur af landinu í gær en ekki reyndist unnt að taka s… Líklegt þykir að loðnutorfur hafi fundist suðaustur af landinu í gær en ekki reyndist unnt að taka sýni. Ljósmynd: Sigurður Þór Jónsson

Möguleg loðnuganga fyrir suðaustan land 

Síðastliðna viku hefur mælst afar lítið af loðnu í annarri yfirferð loðnumælinga á árinu. Með það að markmiði að vakta loðnumiðin tóku íslensk uppsjávarveiðiskip að sér að sigla eftir ákveðum leiðarlínum til og frá kolmunnaveiðum suður af Færeyjum. Það bar árangur strax á fyrsta degi þegar Svanur RE rakst á torfur suðaustur af landinu í gær 13. febrúar á suður hluta Rauðatorgsins. Veiðiskipin Hákon EA og Hoffell SU fóru um kvöldið 10 sjómílur sunnan og norðan við það svæði og urðu einnig vör við lóðningar. Ekki reyndist veður fyrir þau til að taka sýni til að fá úr því skorið hvort um væri að ræða loðnu, en það þykir líklegra heldur en að þetta sé síld. Vænta má upplýsinga frá fleiri veiðiskipum næstu daga.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er við sjórannsóknir á svipuðum slóðum og mun því gera stutt hlé á þeim til að fara til að magnmæla og taka sýni úr því sem líkur eru á að sé loðnuganga. Jafnframt hélt uppsjávarveiðiskipið Polar Ammassak áleiðis þangað í gærkvöldi frá Vestfjarðamiðum þar sem skipið hafði verið við loðnumælingar. Gert er ráð fyrir að mælingar skipanna geti hafist í kvöld og geti staðið yfir í tvo til þrjá daga.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?