Íslenskir kaldsjávarkóralar á válista

Hornkórall í Grænlandssundi Hornkórall í Grænlandssundi

Válistaskráningin kaldsjávarkórala á heimsvísu tók nýlega gildi og eru tegundirnar skráðar á vef Red List IUCN, sjá hér. 

Skráningin byggir á válistaflokkun kaldsjávarkórala og námskeiði í greiningum kaldsjávarkórala sem fram fór fyrir rúmum tveimur árum í Þekkingasetrinu í Sandgerði. Viðburðinn sóttu íslenskir og erlendir sérfræðingar og nemar og voru íslenskir kóralar nýttir á námskeiðinu.

Breiða af sæfjöðrum úti fyrir Suðurlandi

Hvað eru válistar?

Válistar eru yfirlit yfir lífverur sem eiga undir högg að sækja eða eru jafnvel í útrýmingarhættu í ákveðnu landi, á tilteknu svæði eða á heimsvísu. Á þessum listum er tegundunum raðað í mismunandi hættuflokka eftir því hversu alvarlegar ógnir steðja að þeim. Alþjóðanáttúurverndarsambandið (International Union for Conservation of Nature, IUCN) heldur utan um svokallaðan rauðan lista tegunda sem er ógnað (e. Red List of Threatened Species) og gefur út eftirfarandi hættuflokka: tegund í bráðri útrýmingarhættu (e. Critically endangered CE), tegund í útrýmingarhættu (e. Endangered EN), tegund í verulegri hættu (e. Vulnerable VU), tegund í yfirvofandi hættu (e. Near threatened NT), tegund er líklega ekki í hættu (e. Least concern LC) og ekki nægar upplýsingar til að meta tegund (e. Data deficient DD). Að auki eru flokkar fyrir útdauðar tegundir og tegundir sem eru útdauðar í náttúrunni.

 

Kóralrif í Háfadjúpi

Válistaflokkun (Red listing) kaldsjávarkórala hefur ekki farið fram áður og var því um frumátak að ræða. Sérfræðingur frá IUCN Red List var á staðnum og leiddi hópinn við matið út frá viðmiðum IUCN. Fyrir fundinn höfðu þátttakendur lokið námskeiði í aðferðafræði válistaflokkunar IUCN. Metnar voru 22 tegundir kórala sem eiga heimkynni sín í Norður Atlantshafi og 16 þeirra finnast hér við land. Fyrr á þessu ári kom út grein í vísindaritinu Marine Biodiversity þar sem farið er yfir þessa vinnu, aðferðir og niðurstöður en greinina má nálgast hér.

Sumar þessara tegunda eru útbreiddar á heimsvísu, en samt hafa mannleg áhrif valdið meira en 30% samdrætti í stofnstærð miðað við nýleg viðmið. Helstu ógnir tengjast veiðum sem hafa áhrif á botnsvæði. Átta tegundir voru metnar í yfirvofandi hættu NT, tíu tegundir voru ekki metnar í hættu (LC) og fyrir þrjár tegundir fundust ekki nægar upplýsingar (DD). Ein tegund var metin viðkvæm á heimsvísu en það er Desmophyllum pertusum sem hefur verið kölluð postulínskórall á íslensku.

Um námskeiðið í Sandgerði

Við Ísland er að finna yfir 70 tegundir kórala umhverfis landið. Flestir þeirra eru djúpt úti fyrir landinu einkum fyrir sunnan land og íGrænlandssundi. Sæfjaðrir, svartkóralr, steinkóralar, hornkóralar og mjúkkóralar eru safnheiti þeirra hópa sem þessar tegundir falla undir.

Hópmynd tekin fyrir utan Þekkingasetrið í Sandgerði

Á námskeiðinu á Þekkingasetrinu í Sandgerði var farið yfir aðferðir við greiningu kórala til tegunda. Stærstur hluti kóralanna sem notaðir voru á námskeiðinu komu úr fórum vísindasafns sem hýst er á Náttúrufræðistofnun í Garðabæ og var stóri hluti sýnanna frá BIOICE verkefninu sem fór fram 1994-2004. Hópurinn einbeitti sér að því að greina eintök og skoða útbreiðslu þeirra.

Umsjón með námskeiðinu hafði Saskia Brix, frá Senckenberg rannsóknastöðinni í Þýskalandi, en stöðin styrkti viðburðinn. Saskia hefur leitt nokkra rannsóknaleiðangra hér við land í gegnum verkefnið ICEAge á vegum Senckenberg. Fulltrúar frá Náttúrfræðistofnun Íslands og Hafrannsóknastofnun sóttu á námskeiðið og komu að undirbúningi þess. Auk þeirra komu þátttakendur víða að úr heiminum. Fyrir kennslunni fór Catherine McFadden sem er einn helsti sérfræðingur í áttkórölum (Octocorallia).

Sérkennilegur kórall af ættkvíslinni Anthomastus


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?