Samstarfsverkefni um minni umhverfisáhrif fiskveiða

Samstarfsverkefni um minni umhverfisáhrif fiskveiða

Hafrannsóknastofnun er ein af lykilstofnunum í samstarfsverkefni á vegum Horizon Europe sem ber heitið InfiniFish en verkefnið er nýhafið. Samstarfshópurinn er handhafi styrks, sem myndar rannsóknarhóp, með það að markmiði að þróa nýjar tæknilausnir. Þeim lausnum er ætlað að veita leiðbeiningar um hvernig megi lágmarka umhverfisáhrif fiskveiða, um leið og skilvirkni veiðiskipa (flotans) er viðhaldið, og aðlögunarhæfni þeirra styrkt í síbreytilegu umhverfi.

Hafrannsóknastofnun vinnur í samstarfi við Naust Marine og nýtir gögn úr tölvukerfi tengt rafmagnvindum fiskiskipa til að efla rauntímamiðaða ákvarðanatöku skipstjórnenda. Markmiðið er að draga úr eldsneytisnotkun, lágmarka möguleg áhrif á hafsbotn og hámarka afla á sóknareiningu með óskaða aflasamsetningu.

Hafrannsóknastofnunin leiðir jafnframt vinnupakka 6 (WP6) innan InfiniFish verkefnisins, en markmið þess er að þróa skilgreindar vísbendingar til að meta árangur þessarar tækni og áhrif innleiðingar hennar á vistkerfi og samfélög. Þróun þessara vísbendinga byggir á tilraunum og gögnum frá samstarfsaðilum víðs vegar um Evrópu.

Í því samhengi má meðal annars nefna lausnir til að styðja við ákvarðanatöku og gagnavinnslu (verkefnaheiti; InfiniLog, InfiniCatch Trawl, InfiniCatch NOR, InfiniCatch Jano), í samstarfi við stofnanir og fyrirtæki á borð við AZTI, SINTEF Ocean, EV ILVO, Catchwise, Naust Marine og SILECMAR.

Jafnframt er unnið að þróun nýjunga í veiðarfærum (verkefnaheiti; InfiniDoor, InfiniWing), í samstarfi með DTU, Marine Laboratory Denmark, WFPO, Cefas með það að markmiði að draga úr viðnámi og snertingu veiðarfæra við hafsbotninn.

Að lokum er horft til fiskvinnslulausna sem byggja á vélmennastýrðri meðhöndlun afla og aukinni verðmætanýtingu fisks (verkefnaheiti; InfiniSort, InfiniSile, InfiniFood, InfiniGrow), í samstarfi við SINTEF Ocean, Melbu, Çukurova-háskólanum í Tyrklandi, AZTI, HCMR með það að markmiði að draga úr sóun og auka verðmæti.

Saman mynda þessi samstarfsverkefni þekkingu og gagnagrunn sem liggur til grundvallar þeim vísbendingum sem Hafrannsóknastofnun leiðir þróun á. Vísbendingarnar gera kleift að mæla og meta árangur nýrrar fiskveiðitækni með tilliti til loftslagsáhrifa og vistkerfa og styðja þannig við upplýsta ákvarðanatöku, allt frá rekstri veiðiskipa til stefnumótunar.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?