Hnúfubakar í Hafnarfirði á höttunum eftir síld og brisling

Staðfest er að hnúfubakar hafa verið að eltast við töluvert magn af smásíld og brislingi Staðfest er að hnúfubakar hafa verið að eltast við töluvert magn af smásíld og brislingi

Hnúfubakar í Hafnarfirði á höttunum eftir síld og brisling

Hnúfubakar í Hafnarfjarðarhöfn hafa kætt bæði starfsfólk Hafrannsóknastofnunar og vegfarendur við höfnina enda hefur útsýnið oft verið á pari við bestu hvalaskoðun. En svaml hnúfubaka hefur ekki dugað vísindafólki stofnunarinnar sem hefur velt fyrir spurningunni af hverju hvalurinn heldur sig á þessum slóðum. Og nú liggur svarið fyrir; mælt með aðferðum hafrannsókna, bergmálsmælingum og -skráningum og sýnatöku. Svarið í stuttu máli er að hnúfubakar hefur verið að eltast við töluvert magn af smásíld og brislingi en einnig ufsa.

Eftir að Hafrannsóknastofnun flutti til Hafnarfjarðar árið 2020 ásamt útgerð rannsóknaskipa hefur orðið vart við líf í höfninni við upphaf og/eða endi sumra leiðangra. Gera má því skóna að ef hvalur í Hafnarfjarðarhöfn éti síld, brisling og e.t.v. ufsa, tengist ferðir hvalsins inn og út úr innri höfninni ferðum bráðarinnar. Því mætti einnig velta fyrir sér hvað smáfiskarnir éti sem hér halda til og hvort þörf sé á vistfræðirannsókn í nágrenni Hafrannsóknastofnunar?

Hafrannsóknastofnun hefur sinnt skráningum á bergmálsmælum af lífríki upp í sjó og niður við botn á fremur litlu dýpi á skipalæginu en einnig utar í innsiglingunni af og til. Eðli málsins samkvæmt er yfirleitt ekki mikið tóm til sýnatöku við brottför og heimkomu, en ákveðnar athuganir hafa verið gerðar engu að síður.

Í tilefni af hvalkomu í Hafnarfjarðarhöfn um miðjan janúar var ákveðið að varpa ljósi á mögulega fæðu hvala innarlega í höfninni. Hnúfubakur kvaddi leiðangursmenn á Bjarna Sæmundssyni þegar lagt var af stað í loðnuleiðangur 16. janúar. Að leiðangri loknum u.þ.b. viku síðar heilsaði hvalur Bjarnamönnum við hornið á Suðurbakka.

 

2. mynd Hvalur heilsar áhöfninni á Bjarna Sæmundssyni í Hafnarfjarðarhöfn við heimkomu.

Bergmálsskráningar

Í bergmálsleiðöngrum er gjarnan miðað að söfnun upplýsinga niður að meira dýpi en er í höfninni og því er tíðni sendinga frá mælunum að jafnaði minni en æskilegt væri til rannsókna á grunnslóð. Í lok leiðangurs á Bjarna var því safnað grynnra og sent tíðar en venja er. Árni Friðriksson kom til hafnar 26. janúar og var bergmáli þá einnig safnað með svipuðum hætti, en á fleiri tíðnum og með nýrri kynslóð tækja.

Á mynd 3. hér neðar er sýndur er um 750 m langur kafli af bergmálsmælingu frá innsiglingunni og fyrir hornið á Suðurbakka á leið inn að lægi við Óseyrarbryggju. Norðan við Suðurbakka á ívið dýpra vatni eru litlar torfur upp í sjó en þegar grynnkar nær bryggjunni er næstum samfelld 2-3 m þykk torfa við botn, sem hugsanlega þéttist þegar skipið leggst að. Á myndinni eru sýndar skráningar 38 kílóriða bergmálsmælis Bjarna Sæmundssonar, svokallað bergmálsrit (echogram) með ýmsum upplýsingum, sett fram með bergmálstúlkunarforritinu LSSS sem stofnunin hefur notað frá því um 2011.


3. mynd. Skráningar Bjarna Sæmundssonar við Suðurbakka og Óseyrarbryggju
e.h. þriðjudag 23. janúar 2024

Netaveiðar

Í ljósi niðurstaðna bergmálsmælinga var ákveðið að ná í sýni úr þeim fiski sem sást á skráningum undir rannsóknaskipunum síðasta spottann inn til hafnar. Þann 30. janúar lagði áhöfnin á Bjarna Sæmundssyni silunganet með þremur mismunandi möskvastærðum sem voru saman í trossu. Hún var lögð á milli skips og endans á Suðurbakka utan við Hafrannsóknastofnun og fékk u.þ.b. klukkutíma legu. Á 5. mynd eru sýndir þeir fiskar sem veiddust í netalögn og á 6. mynd síld og brislingur í nærmynd. Alls veiddust tíu fiskar, fimm ufsar á bilinu 18–26 cm langir, þrír brislingar (tannsíldar) 12–15 cm og tvær smásíldar (einnig þekkt sem kræða) 12–14 cm langar. Ufsarnir fengust í stærsta möskvann en síldin og brislingurinn tolldu ekki vel í netinu og talsvert tapaðist af þeim þegar netið var dregið. 

 


5. mynd. Aflinn úr netalögn Bjarnamanna 30. janúar.

6. mynd. Nærmynd af síld og brisling (tannsíld).


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?