Hitastig sjávar hefur áhrif á útbreiðslu ískóðs við Ísland

Ískóð er smávaxin kaldsjávarfisktegund sem finna má norður og austur af Íslandi. Myndin er fengin að… Ískóð er smávaxin kaldsjávarfisktegund sem finna má norður og austur af Íslandi. Myndin er fengin að láni frá sænska vefnum www.fishbase.se.

James Kennedy og Christophe S. Pampoulie sérfræðingar á Hafrannsóknastofnun birtu nýlega vísindagrein um tengsl milli útbreiðslu ískóðs, íshafsfisks (Boreogadus saida) af þorskaætt, og hitastigs sjávar í kringum Ísland.

Hitastig sjávar kringum Ísland stjórnast af samspili hlýja Atlantshafsstraumsins frá suðri og pólsjó frá norðri. Breytingar á styrk og eðliseiginleikum þessara strauma orsaka því umhverfisbreytingar í hafinu og hafa þannig áhrif á lífsskilyrði lífvera. Ískóð er smávaxin kaldsjávarfisktegund og meðal annars mikilvæg bráð fyrir fiska, fugla og sjávarspendýr. Ískóð er að finna norður og austur af Ísland, sem er syðri útbreiðslumörk þessarar tegundar. Rannsókn frá því fyrir áratug síðan sýndi fram á að magn ískóðs minnkaði með hækkandi hitastigi sjávar. Nýja vísindagreinin byggir meðal annars á þessari fyrri rannsókn með því að greina gögn frá bæði stofnmælingu botnfiska að hausti (SMH) sem og vori (SMB). Útbreiðsla ískóðs var skoðuð með tilliti til dýpis og hitastigs og hvernig útbreiðslan hefur breyst með sveiflum í hitastigi (Mynd 1).


Mynd 1. Meðalhiti við botni á togstöðvum norðan og austan við Ísland í stofnmælingu botnfiska að vori og hausti.
Strikalínur sýna meðalhita allra áranna (blár) og fyrir afmörkuð tímabil (rauð).

Ískóð veiðist að öllu jöfnu í litlu magni í botnvörpunum í vor- og haustmælingum á botnfiski, venjulega 1-5 einstaklingar á hverri togstöð. Engu að síður fást mikilvægar upplýsingar um líffræði tegundarinnar. Útbreiðslan takmarkast við hafsvæðin norðvestur, norður og austur af Íslandi á 50 til 1.250 m dýpi en er algengast á 350-500 m dýpi (Mynd 2). Ískóð veiðist á breiðu hitastigsbili á haustin (1,8–9,0°C), en á vorin veiddist það sjaldan við hitastig yfir 3,5°C. Sú staðreynd að hrogn ískóðs klekjast ekki út við hitastig yfir 3,5°C gæti skýrt hvers vegna ískóð var nær eingöngu í kaldari sjó á vorin þegar talið er að tegundin hrygni. Í norðvestri veiddist ískóð á meira dýpi en fyrir austan, líklegast vegna þess að grynnra fyrir vestan var sjórinn of hlýr.


Mynd 2. Staðsetning og fjöldi (n) ískóðs sem veiddist í stofnmælingu botnfiska að vori og hausti.

Í hlýjum árum var ískóð að finna á minna svæði og hörfaði frá grunnsævi í norðri og norðvestri í dýpri og kaldari sjó (Mynd 3). Útbreiðslubreytingar voru meiri á vorin en á haustin og gæti tengst þörfinni fyrir kaldara hitastig við hrygningu að vori. Þekking á ískóði við Ísland er enn takmörkuð, t.d. er óljóst hvort hrygning við Ísland gefi af sér nýliða og þá hvort stofninn sé sjálfbær eða hvort hann sé háður því að ungfiskur berist frá öðrum norðlægari svæðum. Hins vegar er ljóst að hlýnun hafsins í kringum Ísland minnkar búsvæði ískóðs, sem gæti haft afleiðingar fyrir afræningja á þessari tegund.


Mynd 3. Líkur á að ískóð veiðist í stofnmælingum botnfiska að vori og hausti kringum Ísland í köldum og hlýjum árum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?