Greining á uppruna olíumengunar með hafstraumalíkönum

Rekgreiningarmynd. Rekgreiningarmynd.

Að beiðni Umhverfisstofnunar var farið í greiningu á reki olíu við suðurströndina á tímabilinu 2020-2022. Ástæðan var talsverður fjöldi olíublautra fugla sem fundist höfðu víðsvegar við strönd suðurlands og í Vestmannaeyjum á þessu tímabili. Notuð voru tölvulíkön frá Veðurstofunni og Copernicus-gagnaþjónustu ESB til að greina áhrif hafstrauma, vinda og sjávaralda á rek agna á yfirborði. Bæði var rekið reiknað aftur í tíma út frá þeim stöðum þar sem olíublautir fuglar fundust, og hermt eftir reki fram í tímann frá mismunandi möguleikum hvað varðar staðsetningu uppruna olíumengunar.

Hafstraumar á svæðinu eru tiltölulega breytilegir en í hvassviðri ræðst rek olíu á yfirborði einkum af vindáttum. Það reyndist ekki mögulegt að segja nákvæmlega til um hvaðan mengunin kom en líklegt er að um sé að ræða olíu sem lekur úr skipsflaki á hafsbotni. Niðurstöður greiningarinnar benda til þess að mestar líkur séu á að uppruni mengunarinnar sé á hafsvæði innan við 12 sjómílur austan eða suðaustan við Vestmannaeyjar.

Nánari upplýsingar um greininguna má finna í skýrslunni „Olíublautir fuglar við suðurströndina 2020-2022: Greining reks olíu á yfirborði sjávar og mögulegs uppruna mengunar“. Hlekkur á greinina.

mynd með færslu

Dæmi úr rekgreiningu í líkaninu. Myndin sýnir hvert mengun (bláir punktar) hafi rekið þann 25.2.2020 eftir stöðuga losun frá uppruna austan við Vestmannaeyjar (svört stjarna) undanfarnar tvær vikur. Spár gera ráð fyrir að mengunin hafi fyrst dreifst í mismunandi áttir, en síðan kom suðvestanhvassviðri og varð rekátt síðustu þrjá dagana til norðausturs (bláar línur). Líkanið spáir að mikið af menguninni nái landi nálægt Vík í kringum 25.2.2020 (bláar stjörnur), og er það í samræmi við tilkynningar um 30 olíublauta fugla sem fundust þessa daga í Vík og í Reynisfjöru (rauðar stjörnur).


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?